Einstök góðmennska í kjölfar harmleiks

Carmen Castillo og sonur hennar Erick Angel Castillo sem lést …
Carmen Castillo og sonur hennar Erick Angel Castillo sem lést nýlega.

Stefán Ö. Magnússon, flugvirki í Dóminíska lýðveldinu, heyrði nýlega af því að að kona ein sem vinnur á sama flugvelli og hann missti 5 ára son sinn þegar hann drukknaði í læk á bak við húsið heima hjá sér. Vegna aðstæðna konunnar og skorts á stuðningsneti og velferðarkerfi mætti móðirin aftur til vinnu fimm dögum síðar og var þá upp á góðmennsku annarra starfsmanna á vellinum til að hafa ofan af fjölskyldunni fyrst um sinn, en konan sem heitir Carmen Castillo er einstæð móðir.

Stefán ákvað um helgina að biðja vini sína á Facebook um aðstoð með að safna saman örlitlum pening handa konuna, en eins og hann lýsir vinnur hún gífurlega mikið við þrif á flugvélum en fær um 30 þúsund krónur á mánuði.

Gríðarleg fátækt

Segir hann að gífurleg fátækt sé í landinu og að þjórfé sem sé mögulega andvirði 2 lítra kókflösku geti skipt marga sköpum í sinni lífsbaráttu. Þrátt fyrir það segir hann að það hafi komið sér á óvart hversu glaðir allir væru almennt, en heimamenn eiga það reglulega til að syngja í vinnunni og mikið sé hlegið.

Það hafi því slegið hann þegar hann heyrði af því að Castillo hefði misst son sinn og ekki síður þegar hún mætti nokkrum dögum seinna og hóf að vinna á ný þar sem bág fjárhagsstaða hreinlega kallaði á það. Sagði Stefán að augljós munur hafi verið þegar einn starfsmaðurinn sé svo svona harmi sleginn. Erfiða stöðu hennar hafi svo mátt sjá þegar hún bað samstarfsmann Stefáns um að lána sér 300 krónur til að eiga fyrir nauðsynjum fyrir sig og börnin sín þann daginn, þar sem hún hafði misst nokkra daga úr vinnu vegna fráfalls sonarins.

Margföld mánaðarlaun söfnuðust

Stefán lét Castillo sjálfur hafa smá pening en ákvað einnig að leita á náðir Facebook-vina sinna. Segist hann hafa búist við því að mögulega myndi hann ná að safna um 30 þúsund krónum og geta þannig hjálpað henni út mánuðinn. Viðbrögðin hafi aftur á móti verið mun betri en hann þorði að vona og í heild hafi safnast um 270 þúsund krónur frá 60 einstaklingum.

Söfnuninni lauk í vikunni og lét hann Castillo fá fjármunina í dag ásamt bréfi með nöfnum þeirra sem studdu hana. Segir Stefán að hún sé mjög trúuð og að líklega muni hún vilja þakka öllum þessum gjafmildu einstaklingum sem þekkja hana ekki neitt í bænum sínum á komandi dögum.

Djúpt snortinn og þakklátur

„Það er engin upphæð sem getur bætt fyrir missir hennar en að þurfa ekki að hafa fjárhagsáhyggjur ofan í sorgarferlið er mikils virði,“ segir Stefán og bætir við: „Ég persónulega er djúpt snortinn af þessum viðbrögðum og get ekki lýst hvað ég er þakklátur fyrir alla aðstoðina og það traust sem mér er sýnt.“

Stefán Ö. Magnússon segist hafa lært gífurlega mikið af fólkinu …
Stefán Ö. Magnússon segist hafa lært gífurlega mikið af fólkinu í Dómíníska lýðveldinu og hvernig það tekst á við lífsbaráttuna.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert