„Reynt að rétta þeirra hlut“

Alþingi samþykkti frumvarpið með 46 samhljóða atkvæðum. Fjórir þingmenn greiddu …
Alþingi samþykkti frumvarpið með 46 samhljóða atkvæðum. Fjórir þingmenn greiddu ekki atkvæði og 13 voru fjarverandi. mbl.is/Golli

Alþingi samþykkti í dag lagafrumvarp um sanngirnisbætur vegna Landakotsskóla sem Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, lagði fram á Alþingi. En fulltrúar allra stjórnmálaflokka á Alþingi stóðu að málinu.

„Þetta mál er ekki mikið að umfangi en þeim mun stærra að innihaldi. Samþykkt þessa frumvarps er mikilvægur áfangi í viðurkenningu á rétti barna sem mannréttindi voru brotin á fyrr á tíð. Nú skal með þessum lögum reynt að rétta þeirra hlut,“ sagði Ögmundur þegar greidd voru atkvæði um frumvarpið á Alþingi í dag.

Frumvarpið varðaði breytingu á lögum nr. 47/2010, um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir
á stofnunum eða heimilum sem falla undir lög nr. 26/2007 (sanngirnisbætur vegna Landakotsskóla).

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, þakkaði Ögmundi  fyrir að hafa leitt málið til lykta og fagnaði því að þingið ætlaði að ljúka málinu.

„Það er búið að bíða mjög lengi sem er eiginlega þinginu til vansa, ég verð að segja það, en það er gott að þetta er að gerast í dag og þótt fyrr hefði verið. Ég vil líka að segja að við ættum að gera meira af því þegar við erum sammála um einhverja hluti að koma þeim hratt og vel í gegnum Alþingi. Það skiptir svo miklu máli bæði fyrir starfsandann hér inni og fyrir samfélagið í heild,“ sagði Birgitta. 

mbl.is