Adele stefnir í 3.000 eintök

Nýjasta plata Adele hefur slegið í gegn bæði hér heima …
Nýjasta plata Adele hefur slegið í gegn bæði hér heima og erlendis. AFP

Nýjasta plata bresku söngkonunnar Adele, 25, hefur selst í um 1.300 eintökum hér á landi. Þetta er óvenju góður árangur því undanfarin ár hefur sala á erlendum geisladiskum dregist stórlega saman.

„Þetta er langmest selda erlenda platan á þessu ári, held ég,“ segir Kristján Kristjánsson í versluninni Smekkleysu. „Maður átti von á góðu en hún fer fram úr öllum vonum. Það er líka gaman hvað fólk á öllum aldri er að kaupa hana, alls konar týpur,“ segir hann.

Samkvæmt Tónlistanum er 25 jafnframt næstsöluhæsta plata landsins í dag á eftir nýjustu jólaplötu Baggalúts, Jólaland.

„Maður tekur eftir því að fólk er hissa yfir því hvað hún selst rosalega mikið en eins og [tónlistarmaðurinn] Father John Misty sagði þá vantaði bara einhverja plötu sem fólki langar að kaupa. Þetta er glæsilegur árangur. Við erum að tala um alla vega fimmföldun miðað við næstu plötu á eftir.“

Smekkleysa, sem gefur út 25 hér á landi, hefur pantað eitt þúsund eintök til viðbótar af plötunni og að sögn Kristjáns mun hún líklega seljast í um þrjú þúsund eintökum fyrir jólin. Síðasta plata Adele, 21, hefur selst í um fjögur þúsund eintökum hér á landi.

Með auknu streymi á tónlist telja margir að geisladiskurinn sé að syngja sitt síðasta. Kiddi er ekki á sama máli. „Salan hefur ekkert hætt. Fólk hefur aðallega áhyggjur af því að geta ekki keypt geisladiskana. Ég heyri miklar áhyggjur yfir því að hitt og þetta sé ekki til, því það eru fáir staðir þar sem hægt er að kaupa þá. En það er greinilegt að eftirspurnin er alveg enn til staðar þó að hún hafi örugglega minnkað í gegnum tíðina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert