Skoðar að leita réttar síns

Það er til skoðunar að hjúkrunarfræðingurinn Ásta Kristín Andrésdóttir, sem ákærð var fyr­ir mann­dráp af gá­leysi eft­ir að sjúk­ling­ur í henn­ar um­sjón lést á Land­spít­ala síðla árs 2012, leiti réttar síns og krefjist skaðabóta frá ríkinu. Þetta segir Ein­ar Gaut­ur Stein­gríms­son, lögmaður Ástu í samtali við mbl.is. „Það er til skoðunar, enda stendur í lögum að ef saklaust fólk er ákært á að borga því bætur,“ segir Einar.

Ásta og Landspítalinn voru sýknuð af öllum ákærum í Héraðsdómi Reykjavíkur 9. september sl. og í gær var tekin ákvörðun um að dómnum yrði ekki áfrýjað.

Við aðalmeðferð í málinu lýsti Ásta því hvernig síðustu þrjú ár, síðan að sjúklingurinn lést, hefðu verið helvíti fyrir hana. Hjónaband hennar væri búið og barnið hennar ætti mjög erfitt, eins og segir í lýsingu blaðamanns mbl.is úr dómssal. Ásta hafði íhugað að flytja til Nor­egs og starfa þar sem hjúkr­un­ar­fræðing­ur en gæti það ekki vegna þess að hún gæti ekki út­skýrt málið fyr­ir mögu­leg­um nýj­um vinnu­veit­end­um. Hún fengi ekki að taka aðrar vakt­ir en dagvakt­ir á Land­spít­al­an­um þar sem hún starfaði á svæf­ing­ar­deild­inni. „Hana hefði oft langað að deyja vegna máls­ins,“ segir í fyrri frétt mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert