Bótamál Ástu Kristínar til Hæstaréttar

Ásta Kristín Andrésdóttir.
Ásta Kristín Andrésdóttir. mbl.is/Jón Pétur

Hæstiréttur hefur fallist á málskotsbeiðni Ástu Kristínar Andrésdóttur hjúkrunarfræðings í máli hennar gegn íslenska ríkinu. Ásta Kristín var sýknuð af ákæru um manndráp af gáleysi og krafðist þess að ríkinu yrði gert að greiða henni fjórar milljónir í skaðabætur vegna málsins.

Fram kemur í beiðni Ástu að málið hafi verulegt almennt gildi, meðal annars sökum þess að annmarkar hafi verið á rannsókn sakamálsins. Auk þess hafi Landsréttur nálgast skaðabótamálið með röngum hætti og meðferð málsins því ábótavant að því leyti.

Landsréttur staðfesti í lok september dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í skaðabótamáli Ástu Kristínar gegn ríkinu þar sem ríkið var sýknað. 

Skaðabótakraf­an var byggð á því að starfs­menn rík­is­ins, einkum lög­reglu­menn sem komu að rann­sókn máls­ins, hafi gert mis­tök við upp­haf máls­ins sem hafi leitt til þess að Ásta Krist­ín tók á sig ábyrgð á and­láti sjúk­lings­ins að ósekju. Ekki var hins veg­ar fall­ist á að bóta­skylda hefði skap­ast vegna fram­göngu lög­regl­unn­ar.

Fram kom í dómi Lands­rétt­ar að þrátt fyr­ir for­send­ur þær sem fram komi í niður­stöðu Héraðsdóms Reykja­vík­ur í saka­mál­inu um að rann­sókn þess hafi verið ábóta­vant yrði ekki talið í ljósi gagna máls­ins að lög­regl­an hafi sýnt af sér sak­næma og ólög­mæta hegðun eða að ákæru­valdið hafi ekki farið að lög­um.

Fram kemur í niðurstöðu Hæstaréttar vegna málskotsbeiðni Ástu Kristínar að í málinu reyni á álitaefni um skilyrði réttar til skaðabóta og hugsanlega meðábyrgð Ástu Kristínar. Það geti haft almennt gildi og umsóknin því tekin til greina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert