Ásta Kristín fer fram á bætur frá ríkinu

Ásta Kristín var umkringd vinum og vandamönnum í héraðsdómi þegar …
Ásta Kristín var umkringd vinum og vandamönnum í héraðsdómi þegar hún var sýknuð. mbl.is/Jón Pétur

Ásta Kristín Andrésdóttir hjúkrunarfræðingur, sem ákærð var fyrir að valda dauða sjúklings sem var í hennar umsjón á Landspítalanum en var seinna sýknuð, hefur gert bótakröfu á hendur íslenska ríkinu vegna fjártjóns og miska sem hún varð fyrir vegna sakamálarannsóknar og ákæru á hendur henni. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem lögmaður hennar sendi fréttamönnum í dag.

Þar segir að fjárkrafan byggist annars vegar á „launatekjutapi vegna breytinga á starfi hennar meðan hún var undir ákæru og hins vegar á launtekjutapi erlendis en henni var ókleift að vinna þar meðan hún var undir ákæru.“

Krafan um miska er reist á því að með samspili spítala- og lögreglurannsóknar hafi Ástu í raun verið talin trú um að hún væri völd að dauða manns. Segir í yfirlýsingunni að það hefði ekki gerst ef lögreglan hefði sjálf séð um fyrstu yfirheyrslu og lögmaður komið að málinu, enda hafi við réttarhöldin komið í „ljós að atvik gátu ekki hafa gerst með þeim hætti sem talið var.“

Þá er einnig byggt á að lagaumgjörð um rannsókn málsins hafi verið í andstöðu við stjórnarskrá og það hafi verið aðalástæðan fyrir því hvernig fór. Þá hafi öll málsmeðferðin og umfjöllun um málið ollið Ástu og fjölskyldu hennar mikilli vanlíðan og skaðað á líkama og sál. Að lokum hafi málið orðið til þess að orðstír Ástu beið hnekki, jafnvel þótt hún hafi verið sýknuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert