Mál Marðar var fyrst skoðað í síðustu viku

Fjölmiðlanefnd telur Mörð Árnason, varaþingmann Samfylkingarinnar, vanhæfan til stjórnarsetu í …
Fjölmiðlanefnd telur Mörð Árnason, varaþingmann Samfylkingarinnar, vanhæfan til stjórnarsetu í stjórn RÚV. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar, segir að meint vanhæfi Marðar Árnasonar til stjórnarsetu í stjórn RÚV hafi fyrst komið til skoðunar hjá Fjölmiðlanefnd í síðustu viku. 

„Við fórum að skoða þetta í síðustu viku. Í kjölfarið sendum við póst í morgun þar sem við bentum á þetta og beindum því til ráðuneytisins að skoða það hvort stjórnarsetan væri í samræmi við lögin,“ segir Elfa og vísar þar til 9. gr. laga um Ríkisútvarpið þar sem segir að kjörn­ir full­trú­ar til Alþing­is og sveit­ar­stjórna séu ekki kjörgeng­ir í stjórn Rík­is­út­varps­ins.

Hún segir virðast sem svo að stjórnarseta Marðar hafi „dottið á milli“ og þar sem Fjölmiðlanefnd á að hafa almenna eftirlitsskyldu með Ríkisútvarpinu hafi Fjölmiðlanefnd komið vinsamlegri ábendingu til mennta- og menningarmálaráðuneytisins þess efnis að þeir sem hafi verið kjörnir til Alþingis eða sveitarstjórnar megi ekki sitja í stjórn ríkisútvarpsins. 

Stjórnarfundur RÚV hefst nú um klukkan 16 og staðfesti Guðlaugur G. Sverrisson, stjórnarformaður RÚV, að farið yrði yfir skipan Marðar á fundinum.

Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar.
Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert