Vill staðfesta dóm yfir hollensku móðurinni

Amfetamín.
Amfetamín. AFP

Málflutningur gegn hollensku móðurinni sem flutti inn 10 kíló af MDMA fíkniefnum, 200 grömm af kókaíni og 9 kíló af amfetamíni og Íslendingnum sem tók á móti þeim við Hótel Frón, hófst í dag fyrir Hæstarétti. Saksóknari óskaði þess að Hæstiréttur ákvarðaði refsingu í málinu, en nokkuð sjaldgæft er að sakborningur í fíkniefnamáli aðstoði lögreglu jafn mikið og hún gerði í kjölfar handtökunnar. Fór verjandi hennar fram á mildun dómsins.

Konan,  Mirjam Foekje van Twujver, var fyrir héraðsdómi dæmd í 11 ára fangelsi og Atli Freyr Fjölnisson, Íslendingurinn sem tók á móti töskunum, var dæmdur í 5 ára fangelsi.

Dóttirin pollróleg

Þegar saksóknari í málinu reifaði það fyrir Hæstarétti sagði hún að þegar Mirjam hafi verið handtekin í tollinum hafi hún strax hegðað sér grunsamlega. Þannig hafi hún hikað við að setja töskuna gegnum lýsingu þegar eftir því var óskað, en dóttir hennar, sem var með í för, hafi virst „pollróleg yfir þessu öllu saman.“

Sagði saksóknari að það hafi verið mat starfsmanna tollsins að svo hafi virst sem dótturinni hafi brugðist mjög þegar bent var á fíkniefnin. Vegna þessa og þeirrar yfirburðastöðu sem móðirin hefur yfir ólögráða dóttur og að hún hafi sjálf haldið utan um ferðatöskurnar var til þess fallið að dóttirin var ekki ákærð og ekki talin hafa komið að málinu.

Málið var flutt fyrir Hæstarétti í dag.
Málið var flutt fyrir Hæstarétti í dag. mbl.is/Sverrir

Átti að fá 20 þúsund evrur fyrir flutninginn

Mirjam hefur játað að hafa vitað af flutningi sinnar tösku, en að fíkniefnin sem voru í tösku dóttur sinnar, um 10 kíló af MDMA, hafi ekki verið með hennar vitundar.

Saksóknari benti á að Mirjam hafi átt að fá um 20 þúsund evrur fyrir flutninginn og þá hafi hún tvisvar áður komið til landsins mánuðina á undan þar sem hún viðurkenndi að hún hafi verið aðstoðarmaður við innflutning fíkniefna. Sagði saksóknari að hún teldi þetta sýna ásetning Mirjam við innflutning.

Bókaði norðurljósaferð fyrir sig og dótturina

Mirjam virðist hafa ætlað að nota ferðina sem helgarferð með dóttur sinni, en hún hafði meðal annars bókað norðurljósaferð með henni yfir helgina.

Kom fram í lýsingu saksóknara að Mirjam hafi fyrir héraðsdómi sagt að henni hafi verið afhendar töskurnar á flugvellinum af ókunnum manni og að það hafi verið samkomulag að aðeins væru fíkniefni í hennar tösku.

Mirjam hafði bókað norðurljósaferð fyrir sig og dótturina.
Mirjam hafði bókað norðurljósaferð fyrir sig og dótturina.

Papeyjarmálið og fleiri fíkniefnamál viðmið

Talsverð umræða hefur verið um tímalengd dómsins sem Mirjam fékk, en saksóknari vísaði til annarra mála sem hefur verið dæmt í. Þannig hafi í Papeyjarmálinu verið dæmt fyrir  55 kg af am­feta­míni, 53 kg af kanna­bis og 9.400 e-töfl­ur. Í þessu máli er aftur á móti gert ráð fyrir að 10 kíló af MDMA sem verða um 85 þúsund e-töflur til viðbótar við að styrkur amfetamínsins hafi verið mjög mikill eða 69-70%. Kókaínið hafi einnig verið með 64% styrkleika. Í Papeyjarmálinu fengu tveir menn 10 ára fangelsi og einn 9 ára fangelsi.

Þá vísaði saksóknari til máls Litháena sem hingað fluttu 12 kíló af amfetamíni. Fengu þeir 7 ára fangelsi, en saksóknari tók fram að þeir hefðu ekki átt sér neinar málsbætur, en í máli Mirjam bætist svo við þessar 85 þúsund e-töflur

Að lokum vísaði saksóknari til máls Elenu Neuman sem flutti hingað til lands 20 lítra af amfetamínbasa. Hún fékk 8 ára fangelsi en að sama skapi hafi Mirjam verið með efni sem samsvara 85 þúsund e-töflum til viðbótar.

Uppfært kl 14:09: Í upphaflegu fréttinni kom fram að saksóknari hefði farið fram á að dómur héraðsdóms yrði staðfestur og beiðni um mildun ekki tekin til greina. Saksóknari kom þeim upplýsingum á framfæri að í kröfugerðinni hafi ekki falist beiðni um að fallast ekki á mildun.

mbl.is