Senda á skýr skilaboð til burðardýra

E-töflur, en hægt hefði verið að gera um 85 þúsund …
E-töflur, en hægt hefði verið að gera um 85 þúsund slíkar með mdma efninu sem Mirjam flutti inn. mbl.is/Kristinn

Miðað við þá hættu sem Mirjam Foekje van Twujver setti sig í við að aðstoða lögreglu við að finna skipuleggjendur að fíkniefnaflutningi sem hún kom að þegar hún flaug með 10 kíló af MDMA fíkniefnum, 200 grömm af kókaíni og 9 kíló af amfetamíni til landsins í apríl á síðasta ári, ætti að milda dóm hennar um einn þriðja. Þetta sagði verjandi konunnar við málflutning í Hæstarétti í dag.

Hótuðu henni og dóttur hennar

Sagði verjandinn, Björgvin Jónsson, að samkvæmt lögum væri hægt að leggja til mildun um einn þriðja af dómi ef ákærði hefur lagt til mikla aðstoð við að upplýsa mál. Sagði Björgvin að Mirjam hafi aðstoðað lögreglu mikið frá því að hún var handtekin. Þannig hafi hún verið í reglulegum samskiptum við skipuleggjendurna varðandi afhendingu efnanna á Hótel Frón og meðal annars sent meintum höfuðpaurum skilaboð á Facebook. Þá hafi hún fengið fjölda símtala frá skipuleggjendum sem sýndi að þeir voru hræddir um að hún hefði verið handtekin.

Á móti hafi hún starfað með lögreglu og meðal annars hafi höfuðpaurarnir beðið hana að hósta tvisvar í einu símtali ef hún væri með lögreglu. Það hafi hún ekki gert. Þá hafi skipuleggjendur hótað dóttur hennar og henni öllu illu og greinilegt að um mjög hættulega einstaklinga væri að ræða.

Hæstiréttur
Hæstiréttur mbl.isKristinn

Hættulegir aðilar á bak við innflutninginn sem vilja henni illt

Mirjam tók svo fullan þátt í tálbeituaðgerð lögreglunnar en eins og komið hefur fram í fjölmiðlum undanfarið fór sú aðgerð út um þúfur og var maður handtekinn þegar hann kom og sótti fíkniefnin í stað þess að fylgja honum þangað sem átti að skila efnunum. Sagði verjandinn að þótt lögreglan hefði klúðrað þessu ætti að horfa til samstarfsvilja Mirjam við mildun refsingar og nefndi hann að horfa mætti til þess að fangelsið yrði 6 ár.

„Ljóst að hættulegir aðilar eru þarna á bak við sem vilja henni örugglega illt,“ sagði Björgvin og benti á að hún gæti verið í lífshættu í langan tíma þar sem hún starfaði svo náið með lögreglu við að ná til skipuleggjenda.

Þurfa að senda skýr skilaboð til burðardýra

Þá telur hann að Hæstiréttur þurfi að gefa burðardýrum í fíkniefnamálum einhverja ástæðu til að starfa með lögreglu. Sagði hann að með mildun dómsins á þeim forsendum að Mirjam hafi starfað með lögreglu væru „send skýr skilaboð til burðardýra,“ um að samvinna með lögreglu í að ná til skipuleggjenda gæti lækkað refsingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert