Niðurstöðurnar sýna góða virkni

Heilbrigð T-fruma
Heilbrigð T-fruma Af vef Wikipedia

„Það er spennandi þróun í gangi,“ segir Gunnar Bjarni Ragnarsson, yfirlæknir lyflækninga krabbameina á Landspítalanum, um niðurstöður rannsókna sem sýna góða virkni svokallaðrar T-frumu meðferðar við tilteknu krabbameini.

T-eitilfrumur eru frumur sem myndast í beinmerg og þróast frekar í hóstarkirtli sem heitir thymus á latínu og þaðan kemur nafnið T-frumur. Þegar þær yfirgefa hóstarkirtilinn gegna þær n.k. eftirlitshlutverki í líkamanum, þær ferðast um í blóði, sogæðakerfi og eitlum og eru mikilvægur hluti af ónæmiskerfi líkamans. „Þær eru af ýmsum gerðum, sumar þeirra drepa frumur sem eru taldar óæskilegar í líkamanum og hver þeirra þekkir aðeins eitt skotmark,“ segir Gunnar Bjarni.

 Ráðast á krabbameinið

Hver tegund T-fruma hefur tilteknu hlutverki að gegna, sumar ráðast beint á óæskilegar frumur meðan aðrar stýra ónæmiskerfinu - ýmist æsa það upp eða bæla. „Í þessum tilraunum eru T-frumur teknar úr blóði, ýmist frá sjúklingnum sjálfum eða öðrum. Þær eru ræktaðar utan líkamans og meðhöndlaðar þannig að þær eiga aðallega að þekkja krabbameinsfrumur og ráðast á þær. Tilgangurinn er að ráðast á krabbameinið, en láta heilbrigðar frumur í friði. Líka er reynt að búa þær þannig úr garði að þær endist lengi í líkamanum,“ segir Gunnar Bjarni. „Það má segja að þetta sé tiltekin gerð bólusetningar, en hún fer fram utan líkamans, á rannsóknarstofu.“

Gunnar Bjarni segir að nú séu spennandi tímar í krabbameinslækningum. „Það er margt er að gerast og núna erum við að sjá áratugalangar rannsóknir bera ávöxt sem vonandi mun leiða til enn frekari framfara“

Ekki gerlegt að bjóða upp á þessa meðferð hér

Gunnar Bjarni segir að víða um heim, bæði vestanhafs og í Evrópu, vinni vísindamenn og læknar að T-frumurannsóknum. Hann segir ekki gerlegt að bjóða upp á þess konar meðferð á Íslandi í dag. „Til þess að svo megi verða þarf gríðarlega þekkingu og flókinn tækjabúnað og aðstöðu, sem ekki er til hér á landi núna. En auðvitað fylgjast íslenskir krabbameinslæknar grannt með því sem er að gerast á þessu sviði og ef þetta fer í almenna notkun, er það framtíðaráskorun fyrir heilbrigðiskerfið að byggja upp slíka meðferð hér á landi. Það hafa verið gerðar frumathuganir á að koma upp slíkri aðstöðu á nýjum spítala.“

Gunnar Bjarni Ragnarsson segir að núna séu áratugalangar rannsóknir á …
Gunnar Bjarni Ragnarsson segir að núna séu áratugalangar rannsóknir á T-frumum til krabbameinslækninga að bera ávöxt
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert