Ráðist á þingmann með svikabrigslum

Ljósmynd/Píratar

„Pírtatapartýið hefur alla burði til að verða forystuafl til lýðræðisumbóta í landinu. Því er það þyngra en tárum taki að formaður framkvæmdaráðs Pírtata Erna Ýr Öldudóttir ráðist með svikabrigslum á einn af þingmönnum flokksins,“ segir Svanur Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, á Facebook-síðu sinni í dag vegna deilna sem logað hafa í röðum Pírata að undanförnu. Vísar hann þar til Birgittu Jónsdóttur, þingmanns flokksins, sem Erna Ýr hefur gagnrýnt harðlega fyrir að taka sér formannsvald án þess að hafa til þess umboð.

Svanur, sem var kosningastjóri Pírata í síðustu borgarstjórnarkosningum, gagnrýnir Ernu Ýr harðlega og segir að í þeim stjórnmálaflokkum sem hann hafi áður starfað, sem að hans sögn séu flestir stjórnmálaflokkar í landinu, hafi formenn framkvæmdaráða gætt þess vandlega að taka ekki þátt í oft á tíðum hörðum deilum innan flokkanna enda væri nauðsynlegt að fólk í æðstu stöðum nyti trúnaðar alls flokksfólks. Hlutverk Pírata sé að hans mati ekki „að brjóta blað í stjórnmálasögu landsins með því að trúnaðarmaður flokksins saki samherja sinn um svik.“

Svanur segir ennfremur á að Birgitta hafi gefið kost á sér í framboð fyrir Pírata fyrir næstu þingkosninga vegna áskorana fjölmargra sem treysti henni til „að vinna áfram að því göfuga markmiði að við Íslendingar fáum nýjan Samfélagssáttmála og nýja stjórnarskrá. Það traust er m.a byggt á reynslu af starfi Birgittu Jónsdóttur á Alþingi Íslendinga frá árinu 2009.“

Svanur vísar þar til gagnrýni sem komið hefur fram á Birgittu úr röðum Pírata eftir að hún tilkynnti að hún ætlaði að gefa áfram kost á sér til setu á Alþingi þrátt fyrir að hafa lýst því yfir fyrir síðustu þingkosningar að engum væri hollt að sitja á þingi í tvö kjörtímabil í röð. Framboðið sagði Birgitta hugsað til þess að koma í veg fyrir að frjálshyggjumenn tækju yfir flokkinn.

Svanur Kristjánsson prófessor.
Svanur Kristjánsson prófessor.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert