Japanir nefndu brjóstagjafir við íslensku sendinefndina

Fríverslunarmál og loftferðasamningar eru meðal umræðuefna íslensku sendinefndarinnar í Japan, …
Fríverslunarmál og loftferðasamningar eru meðal umræðuefna íslensku sendinefndarinnar í Japan, segir Vilhjálmur Bjarnason.

Fríverslunarsamningur milli Íslands og Japans, loftferðarsamningur og hvalaafurðir eru þau mál sem sendinefnd utanríkismálanefndar  leggur mestar áherslur á í heimsókn nefndarinnar í Japan, segir  Vilhjálmur Bjarnason, sem á sæti í sendinefndinni. Jafnréttismálin, m.a. brjóstagjafir í fæðingarorlofi veki þá áhuga hjá Japönunum.

Alþingi samþykkti í síðustu viku gerð fríverslunarsamnings við Japan og segir Vilhjálmur lítið standa út af hjá Íslendingum til að hægt sé að gera slíkan samning. „Við höfum afnumið tolla af öllum vörum nema landbúnaðarafurðum, en eftir standa þó kannski málefni ökutækja.“ Sendinefndin þurfi einnig að ræða loftferðarsamning þar sem enginn slíkur sé í gildi milli ríkjanna. Það feli t.d. í sér að leiguflug séu háð leyfum á hverjum tíma og eins sé ekki hægt að koma á áætlunarflugi við slíkar aðstæður. „Svo kann að vera að málefni hvalaafurða verði rædd,“ segir hann og bætir við að Japanir taki sendinefndinni mjög vel og að áhuginn á Íslandi sé meiri en búist hafi verið við.

Þarf að formgera samskipti þjóðanna

Vilhjálmur segir sendinefndina þegar hafa nefnt þessa málaflokka við viðmælendur sína. „En megin fundirnir verða á morgun og miðvikudag og þar munum við fjalla um þetta betur.“ Ekki sé þó líklegt að samningar liggi fyrir í lok heimsóknar. „En við erum að kynna þann áhuga sem við höfum á að það verði gerður samningur,“ segir hann og bætir við: „Það má segja að það vanti að formgera samskiptin við Japan sem hafa staðið í heil sextíu ár, því í haust eru 60 ár frá því að það var tekið upp stjórnmálasamstarf milli landanna.“

„Af þeirra hálfu þá eru Japanir mjög áhugasamir um jafnréttismál og spyrja okkur mikið um þau,“ segir Vilhjálmur. „Meira að segja á einum fundinum í dag þá kom upp spurning um brjóstagjafir í fæðingarorlofi.“ Hann segir Japan vera talið aftarlega á merinni í jafnréttismálum. „ Á lista yfir jafnréttismál þar sem við erum fyrsta sæti þá eru þeir í sæti númer hundrað af þeim 141 þjóðum sem voru mældar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert