Segir Árna hafa verið vanhæfan

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, hefur komist að þeirri niðurstöðu að Árni Sigfússon hafi verið vanhæfur til að veita styrki úr Orkusjóði til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í fyrrahaust vegna tengsla sinna við forstjóra miðstöðvarinnar en hann er bróðir Árna.

Umboðsmaður telur einnig að úthlutanir úr Orkusjóði í fyrrahaust hafi þar af leiðandi ekki verið í samræmi við lög. Þetta kemur fram í áliti umboðsmanns Alþingis. Kjarninn greindi fyrst frá málinu.

Kvartað var til umboðsmanns yfir ákvörðun Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, um úthlutun úr Orkusjóði. Athugasemdir lutu einkum að hæfi formanns ráðgjafanefndar Orkusjóðs til meðferðar málsins og efni tilkynningar sem birt var á vefsíðu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytsins í kjölfar úthlutunarinnar.

Samkvæmt gögnum málsins auglýsti Orkustofnun eftir umsóknum um rannsóknarstyrki úr Orkusjóði í janúar og febrúar 2015.

Í auglýsingu sem birt var, m.a. á vefsíðu stofnunarinnar, var tekið fram að við úthlutun styrkja 2015 yrði sérstök áhersla lögð á hagkvæma orkunýtingu og orkusparnað, innlenda orkugjafa, vistvænt eldsneyti og sparnað jarðefnaeldsneytis, öflun þekkingar á þessum sviðum og miðlun hennar, rannsóknir, þróun og samstarf sem að þessu miðaði og atvinnusköpun.

Í niðurstöðukafla álitsins segir:

„Með vísan til framangreinds er það niðurstaða mín að þátttaka formanns ráðgjafarnefndar Orkusjóðs í tillögugerð við undirbúning ákvörðunar ráðherra um úthlutun úr Orkusjóði 2015 hafi farið í bága við hæfisreglur stjórnsýslulaga vegna tengsla hans við fyrirsvarsmann eins umsækjanda og að meðferð málsins hafi að þessu leyti ekki verið í samræmi við lög.“

Þá segir umboðsmaður einnig að í þessu máli liggi fyrir að úthlutun styrkja úr sjóðnum sé lokið og ekkert liggi fyrir um hvort og þá hvaða áhrif annmarki hafði á möguleika þess sem kvartaði til að hljóta styrk úr sjóðnum við þá úthlutun. Segir umboðsmaður það verkefni dómstóla að skera úr um hvort annamarkinn leiði til bótaskyldu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert