Sprengingar heyrast frá húsinu

„Það er mikill eldur í húsinu og munum við reyna að slökkva í þessu utan frá - það gengur bærilega,“ segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is og vísar til eldsvoðans sem nú er í húsi að Grettisgötu 87 í Reykjavík.

Jón Viðar segir afar mikilvægt að íbúar í námunda við brunann loki gluggum og kyndi vel upp í húsum sínum. „Ástæðan fyrir þessu er að mjög mikinn reyk leggur nú yfir allt svæðið, en það er engin hætta á því að við missum þennan eld frá okkur í önnur hús,“ segir hann.

Inni í húsinu sem nú brennur er verkstæði. Spurður hvort hættuleg efni séu þar að finna svarar Jón Viðar: „Það hafa orðið nokkrar sprengingar, sennilega eru þarna einhverjir kútar sem eru að springa. Og það gerir verið enn erfiðara fyrir okkur.“

Er það meðal annars þess vegna sem ákveðið hefur verið að senda ekki slökkviliðsmenn inn í brennandi bygginguna.

Á vettvangi eru nú fjórir dælubílar slökkviliðs auk tveggja körfubíla. „Við hringdum út aukalið svo við erum með góðan mannskap á staðnum.“

Aðspurður segir Jón Viðar slökkvistarf koma til með að standa lengi yfir í kvöld og inn í nóttina.

Uppfært klukkan 22:32

Blaðamaður mbl.is er á vettvangi. Hann segir enn töluverðan reyk leggja frá húsinu og eru slökkviliðsmenn nú að rífa þakið.

Íbúar sem búa næst húsinu sem nú brennur hafa sumir ekki fengið að snúa til síns heima vegna brunans. „Búið er að loka mjög stóru svæði hér í kring sem skapar eflaust vandamál hjá mörgum. Það rýkur heilmikið upp úr þaki hússins og stöðugt sprautað á húsið,“ segir blaðamaður mbl.is á vettvangi.

Uppfært klukkan 22:37

Eftir að slökkviliðsmenn hófu að rífa þak hússins blossaði aftur upp talsverður eldur. Segir blaðamaður mbl.is eldtungur standa upp úr öðrum enda hússins. 

Fyrri fréttir mbl.is:

Íbúar flýja að heiman vegna reyksins

Mikill eldur á Grettisgötu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert