Prjóna í öllum frímínútum

Þegar Ida Karólína Harris frétti af því að hægt væri að hjálpa flóttafólki í Evrópu með því að senda því hlýjan vetrarfatnað var hún ekki lengi að taka upp prjónana.

Húfu- og treflaframleiðslan var fljót að vinda upp á sig því brátt hafði Ida fengið samnemendur sína í 5.K í Laugarnesskóla til að prjóna með. Nú er prjónað í öllum frímínútum og jafnvel þar á milli.

„Þetta er eiginlega ekki bara [til þess] að þeir hafi hlý föt," segir Ida sem kveður verkefnið að miklu leyti ganga út á að sýna stuðning. 

„Það er rosalega skemmtilegt að geta hjálpað en [þó ég sé] að hjálpa þeim finnst mér eins og ég vilji hjálpa meira.“

Rúna Björg Garðarsdóttir, kennari barnanna segir bekkjarfélaga Idu hafa tekið hugmyndinni vel og að allir leggji eitthvað af mörkum. Margir hafi fengið foreldra sína til að aðstoða og allir nemendurnir skrifa hlý skilaboð til þeirra sem njóta munu góðs af prjónaskapnum.

Hægt er að kynna sér prjónaverkefnið á KnitAid.org en þar er bæði að finna upplýsingar um hvernig koma skuli handverkinu á áfangastað og uppskriftir að húfum, teppum og treflum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert