Óvissa í afhendingu orðin regla

Útskipun á áli hélt áfram við álver Rio Tinto Alcan í Straumsvík í dag og sáu stjórnendur fyrirtækisins um verkið. Ólafur Teitur Guðnason, upplýsingafulltrúi Rio Tinto Alcan á Íslandi, segir flutningaskipið nú nær fulllestað og mun það á morgun leggja af stað úr höfn áleiðis til Rotterdam í Hollandi með um 4.027 tonn af áli.

„Það verður allt um borð sem þar átti að vera,“ segir Ólafur Teitur í samtali við mbl.is og bendir á að hann eigi von á því að flutningaskip álversins leggi af stað úr höfn öðru hvorum megin við hádegi á morgun. 

Að sögn Ólafs Teits eru keppinautar álversins í Straumsvík þegar farnir að herja á viðskiptavini þess vegna verkfalls hafnarverkamanna. „Við erum farnir að tapa pöntunum og hleypur það á einhverjum þúsundum tonna,“ segir hann.

Spurður hvort um sé að ræða kaupendur sem auðvelt er að fá til baka síðar svarar hann: „Það verður að koma í ljós. Við erum að feta fyrstu sporin á nýjum markaði, en fyrir um þremur árum síðan skiptum við alveg um framleiðsluvöru. Við erum því nýr aðili á nýjum markaði og erum enn að byggja upp bæði viðskiptasambönd og orðspor.“

Ólafur Teitur segir ljóst að þolinmæði kaupenda á áli frá Straumsvík eigi sér sín takmörk. „Þetta er í þriðja sinn sem við stöndum frammi fyrir óvissu vegna verkfalla síðan í ágúst. Að uppi sé óvissa með afhendingar frá ISAL vegna deilunnar er farið að verða regla fremur en undantekning.“

Kolbeinn Gunnarsson, formaður Verkalýðsfélagsins Hlífar, segir engan samningafund hafa verið boðaðan í deilunni en lögum samkvæmt þarf næsti fundur að fara fram eigi síðar en næstkomandi mánudag.

„Það hefur enginn formlegur fundur átt sér stað. Menn hittast á göngum og spjalla saman en ekkert meira en það,“ segir Kolbeinn og heldur áfram: „Vonandi fara menn að vinna hraðar í þessari deilu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert