Spáð ofsaveðri í kvöld

Vindaspá klukkan 12 á miðnætti í kvöld.
Vindaspá klukkan 12 á miðnætti í kvöld. Mynd/Veðurstofa Íslands.

Kröpp og djúp lægð hreyfist nú inn á Grænlandshafi og veldur suðaustanstormi eða -roki á öllu landinu í dag. Með þessu fylgir rigning sunnan- og vestanlands. Búist er við ofsaveðri.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands mun hvessa enn frekar síðdegis og má búast við ofsaveðri og meðalvindi um og yfir 30 m/s á Norður- og Vesturlandi í kvöld. Veðurofsinn mun ekki ganga niður af neinu ráði fyrr en í fyrramálið.

Talsverð hlýindi fylgja lægðinni og má reikna með mikilli leysingu. Því geta ár og vatnsföll vaxið mjög þannig að flæði yfir bakka og varnargarða. Eru vegfarendur því sérstaklega beðnir að fylgjast vel með veðurspám og ástandi vega.

Einnig er brýnt að hreinsa vel frá niðurföllum og útidyrum á jarðhæðum og í kjöllurum.

Hviður eru nú komnar yfir 40 m/s við Hafnarfjall og bætir enn í að sögn veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands. Enn er þó ekki farið að blása neitt af ráði á Norðurlandi, þar sem búist er með ofsaveðri í kvöld.

Fylgjast má með veðri á veðurvef mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert