Blaðamannafélagið samdi við SA

Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands.
Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands.

Blaðamannafélag Íslands og Samtök atvinnulífsins hafa gengið frá breytingum á kjarasamningum í samræmi við Salek-samkomulagið sem ASÍ og SA gerðu á dögunum.

Samningurinn, sem var undirritaður í gær, felur í sér að launahækkunin verði 6,2% frá 1. janúar í stað þess að verða 5,5% frá 1. maí. Almenn launahækkun verður 4,5% 2017 og 3% 2018.

„Ég er gríðarlega ánægður með þetta. Þetta eru miklar hækkanir og ánægjulegt að þær skuli koma til framkvæmda, það veitir ekki af því,“ segir Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands.

Samningurinn gildir til 31. desember 2018.

Í honum felst einnig að hækkun verður á lífeyrisframlagi atvinnurekenda í lífeyrissjóð. Hún verður 0,5% í júlí næstkomandi, 1,5% á næsta ári og 1,5% árið 2018. Hækkunin nemur því samanlagt 3,5% á samningstímanum.

Kosning á meðal félagsmanna BÍ vegna breytinganna fer fram á föstudaginn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert