„Ekki segja honum neitt!“

Elvar og Urður gáfu sér tíma inn á milli æfinga …
Elvar og Urður gáfu sér tíma inn á milli æfinga í gær til þess að hitta blaðamann og ljósmyndara mbl.is. mbl.is/Styrmir Kári

Það er óhætt að segja að það sé nóg að gera hjá unga parinu Urði Egilsdóttur og Elvari Wang Atlasyni en þau mætast í úrslitum Gettu betur í kvöld. Urður er í liði Kvennaskólans í Reykjavík en Elvar er liðstjóri liðs Menntaskólans í Reykjavík.

Hlutverk Elvars sem liðstjóra er að aðstoða við að undirbúa liðið og m.a. spyrja liðsfélagana spjörunum úr. Hann segir blátt bann við því að aðstoða andstæðinga og því hafa hann og Urður ekkert undirbúið sig saman eða hjálpast að. „Það er alveg veggur þarna á milli,“ segir Urður og Elvar bætir við að þau reyni að forðast það að ræða keppnina sín á milli.

Aðspurð hvort að þau hlakki þá til að keppnin klárist í kvöld svara þau því játandi. „Já kannski smá,“ segir Urður og eru þau sammála um að síðustu mánuðir hafi verið örlítið skrýtnir í sambandinu þar sem undirbúningurinn fyrir Gettu betur tekur svo mikinn tíma.

Æft á hverjum degi

Urður og Elvar segjast ekki hafa hugsað mikið út í það hvernig keppnin fari í kvöld en sama hvað verði þau alltaf ánægð. „Þetta er auðvitað svona „win-win situation“,“ segir Elvar.

„Það er auðvitað næstum því skylda fyrir lið MR að komast í úrslit en hjá okkur hefur hver sigur verið stór áfangi,“ segir Urður en þetta er fyrsta ár þeirra beggja í Gettu betur en þau eru bæði á öðru ári. Það voru þó ekki spurningakeppnin sem dró þau saman heldur kynntust þau þegar þau voru þrettán ára gömul í Árbæjarskóla.

Þeim hefur báðum fundist mjög gaman að taka þátt í keppninni og segjast hafa lært margt nýtt. Undirbúningurinn snýst að miklu leyti um að lesa og meðtaka upplýsingar og hefur verið æft á hverjum degi síðustu misseri. Þegar að keppninni lýkur í kvöld geta þau aftur einbeitt sér á fullu að skólanum og félagslífinu. „Það er hitt og þetta sem maður þarf að vinna upp,“ segir Urður.

Alveg klikkað að vera komin í úrslit

Unga parið er á því að besta í stöðunni hafi alltaf verið að aðskilja sambandið og keppnina. „Þegar að ég sagði liðinu mínu að við Elvar værum saman voru þau bara „Ekki segja honum neitt! Ekki tala um þetta,“ segir Urður og hlær. „Og við höfum staðið við það,“ bætir Elvar við.  

Keppnin hefst klukkan 20 í kvöld og eru Urður og Elvar bæði orðin spennt. „Þetta verður góð keppni,“ segir Elvar og bætir við að ferlið hafi verið mjög skemmtilegt.

Aðspurð hvort að það hafi alltaf verið draumurinn að komast í Gettu betur segir Urður að hún hafi fylgst með keppninni síðustu ár og litið upp til þátttakendanna. „Ég horfði upp til þessara krakka og hugsaði að þetta væri eitthvað sem ég myndi aldrei geta,“ segir Urður. „Mér finnst alveg klikkað að vera komin í úrslit.“

Bein útsending frá úrslitaviðureign MR og Kvennó hefst klukkan 20 á RÚV. Spyrill er Björn Bragi Arnarsson en spurningahöfundar og dómarar eru þau Steinþór Helgi Arnsteinsson og Bryndís Björgvinsdóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert