Stór hópur tjalda í Búðardal

Ljósmynd/Sigríður Halldórsdóttir

Farfuglar eru farnir að flykkjast til landsins og eru flestar tegundir farnar að koma hingað til lands einni til tveimur vikum fyrr en fyrir tuttugu, þrjátíu árum að sögn Jóhanns Óla Hilmarssonar, fuglafræðings.

Sigríður Halldórsdóttir rakst á stóran hóp af tjöldum í fjörunni í Búðardal en að sögn Jóhanns kann tjaldurinn mjög vel við sig í Breiðafirðinum. Þar séu góðar fjörur, miklar leirur og æti. 

Jóhann segist hafa heyrt fyrst af hópnum í Búðardal fyrir um tveimur vikum síðan, en tjaldur byrjaði að koma til landsins fyrir um það bil þremur vikum síðan. „Þeir eru alltaf eitthvað hérna á veturna, sérstaklega á Vesturlandi,“ segir Jóhann og vísar aftur til þess að þar séu góðar fjörur. Hann segir að yfir vetrartímann sé tjaldur því frá Reykjanesi og norður úr, að og með Breiðafirði, en engin tjaldahreiður séu t.d. á Stokkseyri yfir vetrartímann, Grindavík sé austasti staður landsins þar sem þeir sjást yfir vetur.

Verpa á húsþökum í borginni

Á sumrin er tjald hins vegar að finna um land allt, þó það sé ekki langt síðan að fuglinn hóf að verpa á svæðum utan Suður- og Vesturlands. Jóhann segir að á Suðurlandi vilji tjaldur vera í möl og sandi, og leitar fuglinn því oft í vegakanta, t.d. undir Eyjafjöllum.

„Þeir sitja fastast þó að bílar keyri framhjá. Þetta er ekki hollt en þeir vijla þetta og hafa kannski ekki um aðra staði að velja,“ segir Jóhann.

Þá verpa þeir einnig á húsþökum með möl og hafa gert það í Reykjavík í einhver ár, segir Jóhann. „Þeir byrjuðu í Ármúla 19 og hafa verið að gera það víðar,“ segir Jóhann en tjaldur er eini vaðfuglinn sem bera æti í unga sína. Aðrir vaðfuglaungar þurfa sjálfir að týna sér eitthvað æti, segir Jóhann.

Jóhann segir að vindáttir hafi verið hagstæðar fyrir farfuglana upp á síðkastið og sé komið mikið af tjöldum, álftum og gæsum. Þá hafi lóan sést í gærmorgun. „Vonandi verður svo gott vor, maður heldur alltaf í vonina um að varpið gangi vel. Varpið var ágætt í fyrra þó svo að maí hafi verið kaldur. Það rættist úr þessu,“ segir hann.

Ljósmynd/Sigríður Halldórsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert