Svandís að flytja til Reykjavíkur?

Nýja parið skoðar hólmann í Bakkatjörn í dag.
Nýja parið skoðar hólmann í Bakkatjörn í dag. Ljósmynd/Björn Ingvarsson

Útlit er fyrir að Svandís Sigurgeirsdóttir verði ekki með hreiður á hólmanum á Bakkatjörn í ár. Björn Ingvarsson hefur undanfarið fylgst með ferðum hennar við Reykjavíkurtjörn og í samtali við mbl.is segir hann að einnig hafi sést til nýs pars við hólmann í Bakkatjörn, sem hingað til hefur hýst Svandísi og hennar maka.

„Mér sýnist sem nýtt par sé þar að kanna málin og að Svandís sé jafnvel flutt til Reykjavíkur,“ segir Björn og bætir við að hann búist við að til tíðinda dragi í vikunni, þar sem hreiðurgerð í hólmanum hafi jafnan hafist í byrjun aprílmánaðar.

Tryggði meirihluta í bæjarstjórn

Svandís varð lands­fræg árið 1994 en sag­an seg­ir að hún hafi tryggt stöðu meiri­hlut­ans í bæjarstjórn Seltjarnarness í kosn­ing­un­um það vor. For­sag­an er sú að Sig­ur­geir Sig­urðsson þáver­andi bæj­ar­stjóri á Seltjarn­ar­nesi lét búa til hólma einn í Bakka­tjörn.

Segir um Sigurgeir að stöku sinnum hafi samstarfsfélagar hans, ekki síst fulltrúar minnihlutans í bæjarstjórn, þótt sem hann mætti ráðfæra sig meira við aðra. Þannig hafi því ein­mitt verið háttað þegar hann lét gera hólmann í miðri Bakka­tjörn.

„Sú ráðagerð virt­ist fara fram hjá mörg­um því ýms­ir ráku upp stór augu þegar hólm­inn reis úr vatni einn sól­bjart­an morg­un,“ segir í tilkynningu frá Seltjarnarnesbæ árið 2004.

Skráð lögheimili á Seltjarnarnesi

„Fjöl­marg­ir „sér­fræðing­ar“ voru þess full­viss­ir að þessi aðgerð myndi hafa veru­lega slæm áhrif á fugla­líf í Bakka­tjörn og jafn­vel ganga að því dauðu. Sig­ur­geir var ósam­mála og hafði fyr­ir því traust­ar heim­ild­ir. Um skeið virt­ist sem hólm­inn myndi kosta sjálf­stæðis­menn á Seltjarn­ar­nesi meiri­hlut­ann enda um grafal­var­legt mál að ræða.

En ein­mitt þegar hæst lét kom álft ein, óvenju glæsi­leg, fljúg­andi úr austurátt og nam land í hólm­an­um ásamt maka sín­um. Segja má að gagn­rýn­isradd­ir hafi hljóðnað þegar sund­fit­in snertu grasið í hinum ný­gerða hólma. Álft­in var sam­stund­is nefnd Svandís Sig­ur­geirs­dótt­ir og hef­ur ásamt maka og nokkr­um tug­um af­kvæma skráð lög­heim­ili á Seltjarn­ar­nesi.“

Eins og áður sagði hefur nú sést til Svandísar spóka sig við Reykjavíkurtjörn og eru því blikur á lofti fyrir þá sem ekki vilja missa þennan glæsta Seltirning úr bæjarfélaginu.

Svandís hefur verið á ferð við Reykjavíkurtjörn.
Svandís hefur verið á ferð við Reykjavíkurtjörn. Ljósmynd/Björn Ingvarsson
mbl.is