„Hvaða atriði ertu að reyna að búa til hérna?“

Fljótlega fóru að renna tvær grímur á Sigmund Davíð.
Fljótlega fóru að renna tvær grímur á Sigmund Davíð. Skjáskot af ruv.is

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra Íslands, gekk á dyr í kjölfar þess að Sven Bergman, sjónvarpsmaður SVT, og Jóhannes Kr. Kristjánsson hjá Reykjavík Media hófu að spyrja hann um eignarhald á Wintris Inc. Viðtalið var hluti af sérstökum þætti af Kastljósinu um tengsl íslenskra stjórnmálamanna við aflandsfélög.

Sigmundur átti 50 prósent hlut í félaginu, sem skráð er á Tortóla, á móti eiginkonu sinni, Önnu Sigurlaugu Pálsdóttur, fram til ársloka 2009. Þá seldi hann henni hlutinn á einn Bandaríkjadal.

Viðtal Bergman og Jóhannes var tekið hinn 11. mars sl. í ráðherrabústaðnum. Upphaflega var Jóhannes ekki í herberginu og Sigmundur virðist hvorki hafa vitað af því að hann myndi stíga inn í né um efni viðtalsins.

Hér á eftir fer viðtalið í heild sinni.

Viðtalið hófst á almennum spurningum um skattaskjól

Bergman: Ég komst að því að íslensk yfirvöld samþykktu að skattayfirvöld keyptu viðkvæm skattagögn. Af hverju er það mikilvægt?

Sigmundur: Nú, það er mikilvægt að endurheimta traust í íslensku þjóðfélagi, traust til stjórnvalda augljóslega en jafnframt til fjármálakerfisins og hvernig við högum málum okkar. Fólk missti trúna á margar stofnanir og augljóslega á stjórnmálunum og bönkunum við hrunið. Og að treysta þýðingarmiklum stofnunum er afar mikilvægt og dýrmætt fyrir samfélagið. Svo við viljum sýna að við látum einskis ófreistað.

Bergman: Hvað finnst þér sjálfum um fólk og fyrirtæki sem nota skattaskjól til að fela eignir til dæmis.

Sigmundur: Á Íslandi eins og í flestum norrænum samfélögum eða öllum norrænum samfélögum, býst ég við, leggjum við ríka áherslu á að hver og einn borgi sinn skerf. Af því að við erum með stórt...Litið er á samfélagið sem stórt verkefni sem hver og einn verður að taka þátt í. Þegar svo einhver svíkst undan samfélaginu er litið á það mjög alvarlegum augum hér á Íslandi. Við höfum reynt, auðvitað, að fá fólk til að greiða skattana sína en einnig lagt áherslu á að rannsaka hvað fór áður úrskeiðis. Það snýr að einhverju leyti að því að varðveita þau gildi sem flestir hafa í hávegum í okkar heimshluta. Að manni ber að greiða skatta sína.

Þá fóru spurningarnar að snúast um Sigmund sjálfan og á hann tóku að renna tvær grímur.

Bergman: En hvað um þig, herra forsætisráðherra? Hefur þú eða hefur þú haft einhver tengsl við aflandsfélag?

Sigmundur: Ég? Nei, nú... Íslensk fyrirtæki, og ég hef starfað hjá íslenskum fyrirtækjum, höfðu tengsl við aflandsfélög, jafnvel – hvað heitir það nú, verkalýðsfélögin... Svo það hefði verið í gegnum slíkt fyrirkomulag en ég hef ætíð gefið upp allar mínar eignir og fjölskyldu minnar upp við skattinn svo að það hefur aldrei verið svo að eigur mínar séu faldar nokkurs staðar. Þetta er óvenjuleg spurning fyrir íslenskan stjórnmálamann að fá. Það er næstum eins og verið sé að ásaka mann um eitthvað. En ég get staðfest það að ég  hef aldrei leynt neinum eigna minna.

Bergman: Afsakaðu ókurteisina, ég vil ekki vera ókurteis. Ég vildi bara spyrja þig persónulega hvort þú hefðir nokkru sinni sjálfur haft tengsl við aflandsfélag?

Sigmundur: Eins og ég sagði þá hafa eignir mínar ætíð verið uppi á borðum.

Bergman: Herra forsætisráðherra, hvað geturðu sagt mér um fyrirtækið Wintris?

Sigmundur: Umm, það er fyrirtæki, ef ég man það rétt, sem er tengt við eitt þeirra fyrirtækja sem ég gegndi stjórnarmennsku í og það hafði viðskiptareikning, sem eins og ég minntist á, hefur verið talinn fram á skattskýrslu frá því það var stofnað.

Mér eru farnar að þykja spurningarnar undarlegar því það er eins og þú sért að ásaka mig um eitthvað þegar þú spyrð mig út í fyrirtæki sem hefur verið á skattskýrslu minni frá upphafi.

Sigmundur stóð upp stuttu eftir að Jóhannes settist niður.
Sigmundur stóð upp stuttu eftir að Jóhannes settist niður. Skjáskot af ruv.is

 Í því sem Sigmundur sleppti orðinu gekk Jóhannes Kr. Kristjánsson inn og settist við hlið Bergmans.

Bergman: Það hlýtur að vera í lagi fyrir mig sem blaðamann að spyrja forsætisráðherrann um persónuleg...

Sigmundur: En þú ert að gefa í skyn að ég hafi ekki borgað skatta af því.

Bergman: Nei, ég spyr bara spurninga. En hvað smáatriðin snertir langar mig að biðja félaga minn að gera það á íslensku því ég er ekki með smáatriðin á hreinu.

Jóhannes: Af hverju hefurðu ekki sagt frá því...

Sigmundur: (grípur frammí) Ég skal taka þetta viðtal við þig seinna..

Jóhannes: Nei, af hverju hafðirðu ekki sagt frá því að þú værir tengdur aflandsfélaginu Wintris.

Sigmundur: Heyrðu, ég skal veita þér þetta viðtal ef þú biður mig...

Jóhannes: Ég er að taka viðtalið núna, Sigmundur, þú getur svarað þessu, þú ert forsætisráðherra þjóðarinnar...

Sigmundur: Algjörlega.

Jóhannes:... þú getur svarað þessum spurningum.

Sigmundur: Vegna þess, eins og ég var að lýsa hérna áðan, þetta kemur fram á skattskýrslunni minni og hefur gert frá upphafi. Það er verið að reyna að gera eitthvað tortryggilegt sem ég hef gefið upp alla tíð.

Jóhannes: Hefurðu gefið þetta félag upp til skatts?

Sigmundur: Algjörlega.

Jóhannes: Af hverju gafstu þetta ekki upp í hagsmunaskráningu þingmanna eftir að þú varst kjörinn á þing?

Sigmundur: Vegna þess að hagsmunaskráning þingmanna náði til tiltekinna atriða og öll þau atriði sem hagsmunaskráning þingmanna nær til voru gefin upp. Þetta sem þú varst að tala um var eitthvað sem var búið til af einhverjum banka á sínum tíma en gefið upp frá fyrsta degi. Þannig að...

Jóhannes: (grípur inn í) Átt þú þetta félag eða?

Sigmundur: Konan mín seldi hlut í fjölskyldufyrirtækinu, það fór í einhverja umsjón í bankanum, bankinn setti upp eitthvert fyrirkomulag á því og úr varð þetta fyrirtæki, (slær á læri sér) ég kann ekki einu sinni á þetta allt saman, en allt gefið upp til skatts frá upphafi.

Um leið og Sigmundur sleppti orðinu stóð hann upp og bjó sig til að ganga út úr herberginu.

Jóhannes: En hvaða eignir eru í félaginu? Við vitum um það að Wintris var kröfuhafi og er kröfuhafi í föllnu bönkunum.

Sigmundur: Þú ert að spyrja mig um hluti sem ég er ekki einu sinni búinn að kynna mér....

Jóhannes: (grípur inn í) Þú seldir þinn hlut í félaginu fyrir einn dollara...

Sigmundur: Nei nei nei.

Jóhannes: ....2009.

Sigmundur: Þú ert að spyrja mig um einhverja tóma vitleysu. Þú platar mig í viðtal á fölskum forsendum...

Jóhannes: Ég er með undirskriftina þína hérna, Sigmundur.

Sigmundur: Já.

Jóhannes: Viltu sjá hana?

Sigmundur: Já, ég meina þetta er bara...

Bergman: Með fullri virðingu, herra forsætisráðherra, þá hlýtur að vera í lagi að spyrja þessara spurninga.

Jóhannes rétti upp blað og sýndi Sigmundi.

Jóhannes sýndi Sigmundi undirskriftina á kaupsamningnum.
Jóhannes sýndi Sigmundi undirskriftina á kaupsamningnum. Skjáskot af ruv.is

 

Jóhannes: Á gamlársdag 2009.

Sigmundur: Þegar þú biður mig að koma í viðtal þá verðurðu að gefa mér tækifæri til að kynna mér það sem þú ætlar að spyrja um.

Jóhannes: Þú hlýtur að vita um félagið, þú seldir konunni þinni félagið, helminginn í félaginu, fyrir einn dollara.

Sigmundur: Seldi ég konunni minni? Ég var ekki einu sinni giftur á þessum tíma. Ég er bara að segja þér að...

Jóhannes: Anna Sigurlaug er konan þín.

Sigmundur:...ég er bara að segja þér að þetta hefur allt verið gefið upp til skatts frá upphafi þannig að þið eruð að reyna að gera eitthvað tortryggilegt sem er ekki tortryggilegt.

Jóhannes: Vita félagar þínir í InDefence að þú hafir átt aflandsfélag sem...

Sigmundur: Hvaða atriði ertu að reyna að búa til hérna?

Að þessum orðaskiptum loknum gekk Sigmundur á dyr og þar með lauk viðtalinu.

Í þættinum kom fram að Sigmundur hefði ekki þegið ítrekuð boð um að koma aftur í viðtal til að útskýra aðkomu að Wintris. Aðstoðarmaður hans hefði boðið fréttamönnum að koma á fund þar sem ræða átti málið með því skilyrði að ekki mætti vitna í efni fundarins. Því boði hefði verið hafnað. Viðtalið hefði síðan leitt til þess að Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona forsætisráðherra, ákvað að upplýsa um tilvist Wintris á Facebook-síðu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert