Nefndi ýmislegt í „óðagoti“

Sigmundur Davíð horfir til himins í þingsalnum í dag.
Sigmundur Davíð horfir til himins í þingsalnum í dag. mbl.is/Eggert

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, segir að svör sín í viðtali við Kastljós hafi byggst á undrun vegna spurninganna sem hann var spurður og hann hafi nefnt „ýmislegt í óðagoti“. Með því hafi hann ekki reynt að dreifa athygli frá málinu og segist síðan hafa gefið afdráttarlaus svör.

Í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag spurði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, forsætisráðherra hvers vegna hann hefði ekki bara sagt satt þegar hann var spurður út í hvort hann hefði komið nálægt aflandsfélögum og um aðkomu sína að félaginu Wintris í viðtali við fréttamann sænska ríkisútvarpsins og Reykjavík Media sem birtist í Kastljósi í gærkvöldi.

Sigmundur Davíð sagðist hafa nefnt ýmislegt í óðagoti á meðan hann reyndi að ná áttum um hvers vegna umræðan í viðtalinu væri orðin allt önnur en boðað hafi verið. Katrín spurði hann þó hvort að það væri ekki eðlileg krafa að hann segði satt í viðtölum jafnvel þó að spurningarnar kæmu honum á óvart.

Tók forsætisráðherra undir að það væri eðlileg krafa. Ítrekaði hann að hvorki hann né kona hans hafi átt eignir í skattaskjóli. Hann hafi þegar gert ítarlega grein fyrir eignarhaldi félagsins og eignum þess.

Auðvitað hafi komið á hann þegar hann var spurður út í félagið en með því hafi hann ekki verið að reyna að dreifa athyglinni. Um leið og hann hafi verið spurður beint um félagið hafi hann svarað afdráttarlaust.

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert