Veitti ekki heimild til þingrofs

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, var ekki tilbúinn að veita Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra heimild til þingrofs líkt og Sigmundur Davíð óskaði eftir á fundi þeirra í hádeginu. 

„Ég hafði ekki ætlað mér að halda hér í dag blaðamannafund á Bessastöðum. Ég tel óhjákvæmilegt í ljósi ummæla forsætisráðherra fyrr í dag og þess fundar sem við höfum átt hér á Bessastöðum að ég geri ykkur og þjóðinni um leið skýra grein fyrir mínum sjónarmiðum og afstöðu til þess erindis sem  hann kom með hingað til Bessastaða,“ sagði Ólafur Ragnar á Bessastöðum rétt í þessu.

Fundi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra og Ólafs Ragnars lauk rétt fyrir klukkan hálf eitt. Forsætisráðherra vildi ekki ræða við fjölmiðla eftir fundinn en það gerði Ólafur Ragnar aftur á móti. 

Svona voru samræður Sigmundar Davíðs og blaðamanna eftir fund forsætisráðherra og forseta:

Blaðamaður: Hvert var efni þessa fundar?
Sigmundur Davíð: Við vorum að spjalla. 
Blaðamaður: Verður þingrof? Verður þing rofið að þinni ósk? Hver er niðurstaða fundarins?
Sigmundur Davíð: Við sjáum til með þetta allt saman. 
Blaðamaður: Kemur það í ljós í dag? Ætlar þú að halda áfram sem forsætisráðherra?
Sigmundur Davíð: Bless, bless! 

Ólafur Ragnar sagði að þeir Sigmundur Davíð hefðu rætt saman í síma í gær og ákveðið að þeir myndu hittast á Bessastöðum kl. 13 í dag. Forsætisráðherra óskaði aftur á móti eftir því kl. 11 í morgun að þeir myndu hittast fyrr. Ákvað Ólafur Ragnar að verða við þeirri ósk og frestaði hann fundi sem hann hafði ætlað að eiga með forseta Kýpur sem er í opinberri heimsókn hér á landi. 

Sagði Ólafur Ragnar að erindi Sigmundar Davíð hefði verið að kanna afstöðu hans og óska eftir því að hann veitti honum heimild til að rjúfa þing nú eða síðar. Með Sigmundi Davíð voru embættismenn forsætisráðuneytisins sem höfðu bréf meðferðis sem óskað var eftir að forseti undirritaði. 

Ólafur Ragnar sagði að þeir Sigmundur hefðu rætt málið nokkuð lengi og að hann hefði útskýrt afstöðu sína. „Forseti hlýtur að meta hvort stuðningur sé við þá ósk hjá ríkisstjórnarflokkunum og hvort líklegt sé að þingrof leiði til farsællarar niðurstöðu, bæði fyrir þjóðina og stjórnarfarið í landinu,“ sagði Ólafur Ragnar. 

Forsetinn sagði að forsætisráðherra hefði ekki getað fullvissað hann um afstöðu Sjálfstæðisflokksins til að verða við þingrofsbeiðninni. Í ljósi þess tjáði Ólafur Ragnar honum að hann væri ekki tilbúinn til þess, nú eða án þess að hafa rætt við formann flokksins eða jafnvel formenn annarra flokka, að veita honum heimild til að rjúfa þing. 

Verður að vera skýrt hverjir stjórni

Þá sagði hann jafnframt að þegar það kæmi að spurningunni um þingrof snerist hún ekki aðeins um hvort þingið væri rofið heldur einnig hverjir færu þá með stjórn landsins fram að að því að ný ríkisstjórn yrði mynduð í kjölfar kosninga. Sagði Ólafur að dæmin sýndu að það gæti oft tekið langan tíma, jafnvel nokkra mánuði.

„Um leið og ég tek afstöðu til slíkrar óskar [um þingrof] verður það að vera skýrt hverjir fari þá með stjórn landsins á meðan kosningar fara fram og á þeim tíma sem líður á milli þeirra og að ný stjórn sé mynduð,“ sagði Ólafur. Sagði hann þó jafnframt alveg ljóst að krafa flokka á Alþingi og víðar í samfélaginu væri sú að þingkosningar færu fram. Sagði hann þá kröfu á margan hátt eðlilega miðað við þær umræður og atburði sem hafa orðið hér á landi.

Mun forseti funda með Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins, eftir nokkrar klukkustundir. Í framhaldi af þeim fundi ætlar forseti að óska eftir fundi með forseta Alþingis og meta í framhaldinu hvort hann muni óska eftir fundi með formönnum annarra flokka. 

Sagði Ólafur Ragnar að hann vissi að það væri harla óvenjulegt að forseti samþykkti að ræða við fjölmiðla í framhaldi af fundi sínum með forsætisráðherra en regla sé að fundir fari fram í trúnaði. Bætti hann við að óeðlilegt hefði verið að hann gerði ekki grein fyrir svari sínu í ljósi yfirlýsingar Sigmundar Davíð á Facebook eftir fund þeirra Bjarna í morgun. 

Þá sagði hann jafnframt ekki við hæfi að forseti væri dreginn inn í atburðarrás sem ætti sér stað frá einni klukkustund til annarrar og vísaði þá til komu Sigmundar á Bessastaði í dag.

Þá áréttaði hann það að þjóðin þyrfti að ná samstöðu um farsæla lendingu í þessu málið. „Það er of mikið í húfi fyrir þjóðina, almenning og orðspor Íslands,“ sagði Ólafur.

Ólafur Ragnar var meðal annars spurður hvort hann ætlaði að endurskoða ákvörðun sína um að bjóða sig ekki fram til forseta Íslands. Vildi hann ekki svara þeirri spurningu beint.

Ólafur Ragnar ræðir við blaðamenn á Bessastöðum.
Ólafur Ragnar ræðir við blaðamenn á Bessastöðum. mbl.is/Eggert
Ólafur Ragnar Grímsson, ræddi við fjölmiðlamenn á Bessastöðum í dag.
Ólafur Ragnar Grímsson, ræddi við fjölmiðlamenn á Bessastöðum í dag. mbl.is/Eggert
Frá Bessastöðum í hádeginu.
Frá Bessastöðum í hádeginu. mbl.is/Eggert
mbl.is