Neituðu allir sök í málinu

Lárus Welding í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Lárus Welding í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Golli

Lár­us Weld­ing, fyrr­um banka­stjóri Glitnis, Jó­hann­es Bald­urs­son, fyrr­um fram­kvæmda­stjóri markaðsviðskipta og Jón­as Guðmunds­son, Val­g­arð Már Val­g­arðsson og Pét­ur Jónas­son, sem all­ir voru starfs­menn eig­in viðskipta bank­ans Glitnis sem ákærðir eru fyrir markaðsmisnotkun og Lárus einnig fyrir umboðssvik lýstu sig allir saklausir við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. 

Lárus er ákærður fyrir markaðsmis­notk­un og umboðssvik en hinir fjórir fyrir markaðsmisnotkun. 

Fyrirtaka í málinu fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Málinu var því næst frestað til 15. júní en tveir ákærðu, Jónas og Valgarð, eiga eftir að velja sér verjanda og þá áttu lögmenn eftir að kynna sér gögn málsins betur. 

Boðuð er yfirheyrsla á 73 vitnum í málinu. 

Viðskipti Glitn­is með eig­in bréf fólu í sér langvar­andi, stór­fellda og ólög­mæta íhlut­un í gang­verki verðbréfa­markaðar­ins þannig að gengi hluta­bréfa Glitn­is stjórnaðist ekki af markaðslög­mál­um.

Var geng­inu hand­stýrt af starfs­mönn­um bank­ans og upp­söfnuð bréf svo seld áfram til val­inna viðskipta­vina, m.a. stjórn­enda bank­ans, þar sem viðskipt­in byggðust á blekk­ing­um og sýnd­ar­mennsku til að geta haldið áfram með markaðsmis­notk­un­ina. Þetta kem­ur fram í ákæru embætt­is héraðssak­sókn­ara í markaðsmis­notk­un­ar­máli Glitn­is sem ákært var fyr­ir í vik­unni.

Deild eig­in viðskipta Glitn­is kom á tíma­bil­inu 1. júní 2007 til 26. sept­em­ber 2008 að viðskipt­um í meira en helm­ingi til­fella þegar um var að ræða kaup á bréf­um í bank­an­um sjálf­um í sjálf­virk­um pör­un­ar­viðskipt­um í Kaup­höll­inni.

Á sama tíma seldi deild­in aðeins 1,2% af velt­unni á sama hátt en meiri­hlut­inn var seld­ur í stór­um utanþingsviðskipt­um til val­inna viðskipta­vina þar sem bank­inn sjálf­ur fjár­magnaði viðskipt­in. 

Frétt mbl.is: Handstýrðu gengi Glitnis

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert