Tómas fagnar rannsókn málsins

Tómas Guðbjartsson læknir.
Tómas Guðbjartsson læknir. mbl.is/Kristinn

„Til að taka af öll tvímæli þá fagna ég því að þetta flókna mál sé rannsakað, líkt og aðrir samstarfsmenn mínir á Landspítala, en forsendur slíkra rannsókna hljóta þó að vera að rannsakendur hafi aðgang að nauðsynlegum gögnum bæði hérlendis og í Svíþjóð,“ segir Tómas Guðbjartsson, yfirlæknir og prófessor, í yfirlýsingu sem hann sendi fjölmiðlum í kvöld.

Heilbrigðisráðherra sagði á þingi í gær rétt að Alþingi tæki til skoðunar hvort ástæða væri til að koma á fót rannsóknarnefnd til þess að rannsaka aðkomu íslenskra stofnana að meðferð sjúklings sem undirgekkst umdeilda barkaígræðslu árið 2011 við Karolinska háskólasjúkrahúsið í Stokkhóli.

Íslensku læknarnir Tómas Guðbjartsson og Óskar Einarsson tóku þátt í meðferð mannsins og Tómas aðstoðaði meðal annars við aðgerðina. Sjúklingurinn lést tveimur og hálfu ári síðar.

Í yfirlýsingunni segir Tómas að nýlega hafi komið fulltrúar sænskrar rannsóknanefndar til landsins og kynnt sér gögn málsins. Hann hafi veitti þeim aðgang að öllum þeim gögnum sem óskað var eftir, að höfðu samráði við yfirmenn á Landspítala. Fleiri nefndir muni þó vera að rannsaka málið í Svíþjóð og hafa nokkrar þeirra þegar haft samband við Tómas og samstarfsmenn hans.

Tjáir sig ekki frekar

Tómas segir það rangt sem haldið hefur verið fram af fulltrúum Siðfræðistofnunar HÍ, að helstu rannsakendur í Svíþjóð hafi ekki aðgang að öllum málsgögnum hér á landi, svo sem tölvupóstum. Síðastliðinn vetur hafi verið látið reyna á það sérstaklega fyrir íslenskum dómstólum hvort leyfilegt væri fyrir Landspítala að afhenda viðkvæm gögn eins og upplýsingar úr sjúkraskrá til sænskrar rannsóknarnefndar og reyndist það heimilt.  

Hann tekur einnig fram að starfsmenn siðfræðinefndar hafi ekki leitað eftir upplýsingum frá honum um sögu og feril þessa flókna máls.  

„Það er rétt að halda því til haga að ákvörðunin um aðgerðina var tekin í Stokkhólmi og þar fór aðgerðin fram líkt og mestur hluti eftirfylgdar að henni lokinni. Ég tel ekki rétt að tjá mig frekar að svo stöddu þar sem rannsóknum lykilnefnda í Svíþjóð er enn ólokið, en mun hér eftir eins og hingað til veita rannsóknaraðilum sem hafa til þess umboð og eftir því leita aðgang að öllum nauðsynlegum gögnum tengdum aðdraganda hennar,“ segir Tómas.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert