Brjóta á þeim sem ekki segja frá

Scott Modell sagði að fatlaðir einstaklingar séu allt að þrefalt …
Scott Modell sagði að fatlaðir einstaklingar séu allt að þrefalt líklegri til að verða fyrir kynferðisofbeldi en aðrir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fatlaðir einstaklingar eru allt að þrefalt líklegri til að verða fyrir kynferðisofbeldi en aðrir. Þá hefur stór hluti fatlaðra einstaklinga sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi lent í ítrekuðum brotum. Þetta var meðal þess sem kom fram á ráðstefnu um rannsókn og meðferð mála þegar grunur er um að fatlað barn hafi sætt ofbeldi, sem fram fór á Grand hóteli í dag.

„Ofbeldi er alltaf alvarlegt en við vitum líka að sumir hópar eru líklegri en aðrir til þess að sæta ofbeldi og eiga jafnframt erfiðara með að sækja sér hjálp. Fötluð börn eru viðkvæmur hópur hvað þetta varðar og því þarf að beina sjónum að þeim sérstaklega,“ sagði Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, þegar hún ávarpaði ráðstefnuna.

Fagaðilum veitt fræðsla um málaflokkinn

Ráðherra sagði öllum orðið ljóst hvað ofbeldi er alvarleg meinsemd í samfélaginu. Það hafi m.a. sýnt sig í því hve mikill og víðtækur áhugi er fyrir virkri þátttöku í landssamráði gegn ofbeldi sem hófst formlega síðastliðið haust. Samráðið er byggt á samstarfsyfirlýsingu þriggja ráðherra sem undirrituð var fyrir rúmu ári um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.

Eygló veitti Barnaverndarstofu þriggja milljóna króna framlag fyrr á árinu til að styrkja rannsókn og meðferð mála þegar grunur er um að fatlað barn hafi sætt ofbeldi, en ráðstefnan kemur í kjölfar þess. Þar fer fram almenn fræðsla til að auka vitund og þekkingu fagfólks sem hefur aðkomu að þessum málum, auk þess sem þeim eru veittar leiðbeiningar um viðeigandi viðbrögð. Á morgun og á föstudag verður svo haldið námskeið um efnið fyrir starfsfólk stofnana sem vinnur að málefnum fatlaðs fólks og annað námskeið fyrir starfsfólk Barnahúss þar sem fjallað verður um rannsókn og meðferð þessara mála.

Chris Newlin sagði að framtak ráðherra og Barnaverndarstofu væri stórt …
Chris Newlin sagði að framtak ráðherra og Barnaverndarstofu væri stórt skref í áttina að enn betri viðbrögðum fagaðila við brotum af þessu tagi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

6-7% líkur á að barn sem fæðist í dag komi einhvern tímann í Barnahús

Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, ávarpaði einnig ráðstefnuna og lýsti yfir ánægju sinni með ákvörðun ráðherra þar sem nú sé þetta mál markvisst gert að umfjöllunarefni í fyrsta skipti hér á landi. Sagði hann að á hverju ári leiki grunur á því að um 250 til 300 börn hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi hér á landi. „Það eru um sex til sjö prósent líkur á því að barn sem fæðist í dag komi á einhverjum tímapunkti í Barnahús þar sem grunur er á að það hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi,“ sagði hann en bætti við að um 3–4% barna reynist hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi.

Þá sagði hann að gríðarlega mikilvægt væri að auka vitundarvakningu um málaflokkinn í samfélaginu og fræða þá sem vinna með börnum, eins og gert verður á námskeiðunum.

Áður talað um að „hreinsa veröldina“ af fötluðu fólki

Þeir Chris Newlin og Scott Modell, sérfræðingar frá Bandaríkjunum, voru með framsögu á ráðstefnunni auk þess sem þeir koma til með að fræða á námskeiðunum. Báðir eru með umfangsmikla þekkingu og reynslu á þessu sviði.

Modell, sem er með doktorsgráðu í kennarafræðum og starfar sem framkvæmdastjóri barnaverndarnefndar í Tennessee auk þess að hafa áratuga reynslu af störfum með fötluðum börnum, hóf framsögu sína á því að fara yfir söguna. Sagði hann að í Rómaveldi til forna hefði verið löglegt fyrir foreldra að myrða börn sín ef þau fæddust með fötlun. Þá hafi nasistar myrt þúsundir fatlaðra manna og árið 1942 hafi verið talað um að „hreinsa veröldina“ af fötluðu fólki. Sem betur fer hafi þetta breyst, en í dag eru um 15–20% íbúa heimsins með einhvers konar fötlun.  

Þá sagði hann að börn með fötlun séu gríðarlega viðkvæmur hópur og líklegri til að verða fyrir félagslegri einangrun en önnur börn. Þá séu þau mun líklegri til að verða fyrir hvers kyns ofbeldi en önnur börn. Modell sagði börn sem ekki tala vegna fötlunar sinnar vera í sérstaklega miklum áhættuhópi. „Það eru mörg dæmi um það að gerendur segjast hafa valið fórnarlömb sín vegna þessa því þeir halda þá að það komist ekki upp um þá,“ sagði hann.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, ávarpaði ráðstefnuna í dag.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, ávarpaði ráðstefnuna í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

49% fatlaðra sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi hafa lent í fleiri en 10 brotum

„Hverjar eru afleiðingarnar fyrir þá sem beita fötluð börn kynferðisofbeldi?“ spurði Modell salinn. Lítið var um svör, svo hann svaraði spurningunni sjálfur: „Þeir geta gert það aftur og aftur og ég er orðinn þreyttur á því.“

Modell vísaði í rannsóknir þar sem fram kom að aðeins 3% af kynferðisbrotum gegn börnum með þroskaraskanir eru tilkynnt. Þá eru yfir 70% brota gegn börnum með andlega fötlun ekki tilkynnt. Sagði hann þó að frá árinu 2009 hafi orðið mikil aukning í tilkynntum kynferðisbrotamálum gegn fötluðu fólki, en það megi rekja til aukinnar vitundarvakningar. Þannig hafi tvöfalt fleiri mál verið tilkynnt árið 2013 en 2009. Þá hafi um 49% fatlaðra einstaklinga sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi lent í fleiri en tíu brotum, samkvæmt bandarískri rannsókn.

Modell vísaði jafnframt í rannsókn sem gerð var á sjúkrahúsi í Bandaríkjunum, og náði til 4.340 fatlaðra einstaklinga sem komu inn á sjúkrahúsið af misjöfnum ástæðum á fimm ára tímabili. Í ljós kom að 68% þeirra höfðu orðið fyrir kynferðisofbeldi, og 32% þeirra voru einnig þolendur annars konar líkamlegs ofbeldis.

Ekki sé litið á fatlað fólk sem ungabörn

„Það sem skiptir mestu máli er að fyrirbyggja þessi brot,“ sagði Modell og benti á að fræðsla væri gríðarlega mikilvæg í þeim efnum. Þá væri einnig mikilvægt að gripið væri strax inn í ef grunur væri um að fatlað barn hefði orðið fyrir ofbeldi.

Stórt vandamál lægi í því að oft sé komið fram við fatlað fólk eins og ungabörn, og fá þau þá ekki kynfræðslu af neinu tagi. Ef ekki væri talað um þessi mál við fatlað fólk væri hætta á því að þau skildu ekki afleiðingar kynferðisofbeldis. Nefndi hann dæmi um fatlaða drengi sem höfðu farið árum saman í læknisskoðun hjá lækni í heimabæ sínum. Þegar þeim var svo loks veitt einhvers konar kynfræðsla sögðu þeir að „svona gerði læknirinn“ við þá. Þá komst upp um kynferðisofbeldi sem hann hafði beitt þá árum saman, en þeir skildu ekki að það væri rangt því þeir vissu ekki betur.

Mikilvægt væri að fólk sem vinnur með börnum, og kemur til með að taka viðtöl við fötluð börn vegna gruns um kynferðisbrot, nálgist þau af yfirvegun og ró.

Modell sagði að nauðsynlegt væri að fyrirbyggja brotin.
Modell sagði að nauðsynlegt væri að fyrirbyggja brotin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikilvægt að stuðla að vitundarvakningu 

Newlin, sem er forstjóri National Children’s Advocacy Center í Bandaríkjunum, sagði í samtali við mbl.is að framtak ráðherra og Barnaverndarstofu væri stórt skref í áttina að enn betri viðbrögðum fagaðila við brotum af þessu tagi. „Það er mjög mikilvægt fyrir fólk sem vinnur með börnum að þekkja fatlanir og vita hvernig á að bregðast við ef barn með fötlun kemur í viðtal vegna gruns um kynferðisbrot,“ sagði hann og bætti við að þeir Modell muni leggja sitt af mörkum til að veita þjálfun í slíkum viðbrögðum næstu tvo daga.

Þá sagði hann að einnig þyrfti að beina sjónum að þeim sem fremja kynferðisbrot gegn fötluðum börnum og reyna að fyrirbyggja að þau væru framin. „Ef ekki er talað um þessi mál þá er enn frekar aukið á viðkvæmni þessa hóps og þá verður þessi málaflokkur að feimnismáli. Því er gríðarlega mikilvægt að stuðla að vitundarvakningu og opinni umræðu um þessi mál og ráðstefnan hér í dag og námskeiðin næstu daga sýna viðleitni Íslendinga til að gera einmitt það.“

Aðspurður um það hvort hann telji fleiri brot vera tilkynnt hér á landi en í öðrum löndum segir Newlin að fjöldi brota skipti ekki máli. „Ef það er eitt brot þá þurfum við samt að tryggja að allir verkferlar séu í lagi. Það skiptir ekki máli hvað brotin eru mörg en markmiðið er auðvitað að það séu engin brot framin og að við þurfum ekki lengur að starfa í þessum málum. Staðreyndin er hins vegar sú í dag að brot sem þessi eru framin í öllum löndum og því þarf að halda áfram vinnu við það að fræða og stuðla að vitundarvakningu svo að vonandi einn daginn verði engin brot.“

Newlin sagði að auka þurfi vitundarvakningu og fræðslu.
Newlin sagði að auka þurfi vitundarvakningu og fræðslu. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is