„Köggullinn í sálinni er fastur“

Í sjöttu grein sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks …
Í sjöttu grein sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks segir að fatlaðar konur séu í sérstakri áhættu á að verða fyrir hverskyns ofbeldi. mbl.is/Eggert

Fatlaðar konur sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi eiga það sameiginlegt að þeim var ekki trúað þegar þær stigu fram til þess að segja frá ofbeldinu. Mál sem voru kærð voru látin niður falla án þess að konurnar fengju að vita af hverju.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í rannsóknarverkefninu „Konur með þroskahömlun eru fyrst og fremst konur,“ en verkefnið fjallar um kynverund og sjálfræði kvenna með þroskahömlun.

Fjallað var um verkefnið á málþingi um kynferðisofbeldi gegn fötluðu fólki, sem fór fram sl. fimmtudag. Eva Þórdís Ebenezersdóttir og Ágústa Björnsdóttir unnu að verkefninu árið 2011, en fyrirlestur þeirra bar yfirskriftina: „Köggullinn í sálinni er fastur“.

Þær segja að niðurstöður rannsóknarinnar sem snúa að kynferðisofbeldi hafi verið sláandi og þar hafi komið fram skýr þörf  á því að gera konur með þroskahömlun sýnilegri í umræðu um kynferðisofbeldi.

Verkefnið leiddi einnig í ljós að konur sem stigu fram hefðu ekki fengið neinn stuðning frá fagfólki þrátt fyrir að hafa reynt að leita sér aðstoðar.

Viðbrögðin hafa sært líkt og ofbeldið

„Konurnar eiga það líka sameiginlegt að minningin um ofbeldið fylgir þeim, eltir þær uppi og er eins og ,,köggull“ í sálinni eins og ein konan orðaði það,“ sagði Ágústa í ræðu sinni á málþinginu.

„Þessi reynsla hefur markað líf þeirra og það er ekki bara ofbeldið sem hefur sært heldur líka viðbrögð fólks við því. Af þessu má sjá hversu utan við samfélagið konur með þroskahömlun hafa verið. Þær eru ekki viðurkenndar sem manneskjur sem geta orðið fyrir ofbeldi og erfið reynsla hefur verið höfð að engu,“ sagði Ágústa.

Hún benti á að í sjöttu grein sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks segi að fatlaðar konur séu í sérstakri áhættu á að verða fyrir hverskyns ofbeldi. Að auki komi fram í samningnum mikilvægi þess að fullt aðgengi sé fyrir fatlað fólk að samfélaginu í heild sinni, þar á meðal aðgengi að heilbrigðisþjónustu, menntun og upplýsingum með það að markmiði að fatlað fólk geti lifað við mannréttindi og frelsi til eigin ákvarðanatöku.

Athugasemd gerð við aðgerðarleysi íslenskra stjórnvalda

„Pottur virðist brotinn hvað varðar stuðning og ráðgjöf fyrir konurnar sem um ræðir í þessari rannsókn og ljóst að hlúa þurfi sérstaklega að þessum hópi kvenna hvað kynferðisofbeldi varðar. Niðurstöðurnar benda því til að margt þurfi að breytast til batnaðar hvað varðar menntun og stuðning til þess að ákvæði sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði uppfyllt,“ sagði hún.

Þá benti Ágústa á að árið 2008 hefði eftirlitsnefnd SÞ athugasemdir við að íslensk stjórnvöld hefðu ekki sinnt aðgerðaskyldu sinni í jafnréttismálum og sérstaklega tiltekið að stöðu kynferðisbrotamála væri ábótavant.

„Niðurstaða þessarar rannsóknar rímar við það,“ sagði hún.

Búa til fræðsluefni fyrir konur með þroskahömlun og stuðningskerfið

Eva Þórdís greindi frá því að þær hefðu fengið styrk frá Hlaðvarpanum,  menningarsjóði kvenna á Íslandi, til að búa til fræðsluefni sem gæti brúað bilið á milli kvenna með þroskahömlun og þess stuðningskerfis þegar er til staðar fyrir þolendur kynferðisofbeldis.

Markmiðin eru:

  • Að draga úr fordómum í garð fatlaðra kvenna/kvenna með þroskahömlun.

  • Að benda á að konur með þroskahömlun eiga sér sjaldnast málsvara þegar kemur að umræðu um kynferðisofbeldi.

  • Stuðla að jöfnum rétti brotaþola kynferðisofbeldis til trúverðugleika og stuðnings.

  • Að stuðla að sameiningu tvístraðs hóps.

  • Að framleiða upplýsingaefni tengt málefninu sem um ræðir.

  • Að skapa umræðu um að konur eru konur.

„Efnið sem við ætlum að setja saman er í formi tveggja bæklinga sem miða að þörfum þessara tveggja hópa en niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að þeir fari á mis hvor við annan. Með þessu viljum við stuðla að vitundarvakningu og upplýsingagjöf á báðum vígstöðvum,“ sagði Eva Þórdís á málþinginu á fimmtudag

Annars vegar verði gerður bæklingur fyrir konur með þroskahömlun og hins vegar bæklingur fyrir stuðningskerfið.

Fegin að eiga ekki leyndarmálið ein lengur

Þær Ágústa og Eva Þórdís fengu Maríu Hreiðarsdóttur til liðs við sig við gerð bæklinganna og til að taka þátt í umræðunni.

Í ræðu sinni sagði María, að Ágústa og Eva Þórdís hefðu boðið sér að taka þátt í verkefninu er hún var nemandi Ágústu við Háskóla Íslands, en þær töldu mjög mikilvægt að kona með þroskahömlun væri þátttakandi í að búa til bæklingana. Í þeim væri að finna efni sem væri ætlað konum með þroskahömlun sem orðið hefðu fyrir kynferðislegu ofbeldi.

María sagði að umræða um kynferðisofbeldi gegn fötluðum konum hefði aukist á þessu ári en fatlað fólk hefði hins vegar ekki verið mikið með í þeirri umræðu.

„Ég hef þó opinberað mitt leyndarmál í DV í síðustu viku. Það hafði árif á mig en jafnframt er ég mjög fegin að eiga ekki leyndarmálið ein lengur. Ef ekki hefði verið fyrir þessa rástefnu þá hugsanlega hefði ég ekki gert það  og sæti ég því en uppi með leyndarmálið, eins og fyrirlesturinn okkar heitir, með köggulinn í sálinni. Þessi orð lýsa því betur en öll önnur orð hvernig konu, sem orðið hefur fyrir kynferðisofbeldi, líður,“ sagði María.

Fjölmenni sótti málþingið sem fór fram á Grand Hotel í …
Fjölmenni sótti málþingið sem fór fram á Grand Hotel í Reykjavík á fimmtudag. mbl.is/Jón Pétur
mbl.is

Bloggað um fréttina