Frumvarp um flugvöllinn í haust

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins. Norden.org/Heidi Orava

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segist ætla að leggja fram frumvarp, strax þegar þing kemur saman í ágúst, um málefni Reykjavíkurflugvallar. Í gær staðfesti Hæstiréttur dóm héraðsdóms um að ríkið ætti að standa við samning sem þáverandi innanríkisráðherra gerði við Reykjavíkurborg árið 2013 um að loka NA-SV-braut flugvallarins.

Höskuldur segir að hann sjái fyrir sér að lögin muni kveða á um að flugvöllurinn verði áfram í óbreyttri mynd, „bæði stærð og umfang vallarins þangað til annar betri eða jafngóður valkostur finnst,“ segir Höskuldur.

Bendir hann á að í niðurstöðukafla héraðsdóms, sem Hæstiréttur hafi staðfest, komi fram að í krafti heimilda sinna geti Alþingi gefið ráðherra fyrirmæli eða sett sérstök lög um málefni vallarins. Þá sé einnig kveðið á um forgang laganna gegn hvers kyns áætlunum sveitarfélaga í skipulagsmálum að sögn Höskuldar. Segir hann væntanlegt frumvarp vera viðbragð við dómi Hæstaréttar.

Spurður hvort að ríkið geti með slíkum lögum skapað sér eða Reykjavíkurborg skaðabótaskyldu gegn þeim verktökum sem byggi á Hlíðarendasvæðinu segir Höskuldur að það sé mjög langsótt. Það verði þó vissulega punktur sem tekinn verði til skoðunar í þinglegri meðferð málsins.

Höskuldur segir að Framsóknarflokkurinn hafi lagt til frumvarp um flugvöllinn áður þar sem kveðið var um að hann yrði áfram. Þá sé talað um málið í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Segist hann því eiga von á því að málið njóti fylgis meirihlutans, en hann segir að það verði að koma betur í ljós í haust.

NA-SV-brautin á Reykjavíkurflugvelli hefur verið í umræðunni.
NA-SV-brautin á Reykjavíkurflugvelli hefur verið í umræðunni. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert