Niðurstaða dómsins óvænt

Stjórn Strætó mun skoða að áfrýja dóminum.
Stjórn Strætó mun skoða að áfrýja dóminum.

„Þetta er ekki niðurstaðan sem við hefðum viljað þannig að það er ekki ólíklegt að við skoðum það að áfrýja málinu,“ segir Bryndís Haraldsdóttir, stjórnarformaður Strætó bs. Fyrirtækið var 16. júní sl. dæmt til að greiða Iceland Excursions Allrahanda ehf. 100 milljónir króna í skaðabætur auk vaxta og 7,5 milljóna í málskostnað vegna brota á meginreglum útboðsréttar og lögum um opinber kaup í lokuðu útboði sem haldið var 2010 þegar rekstur á 13 leiðum Strætó bs. var boðinn út.

Strætó braut jafnræðisreglu

Forsaga málsins er að eftir að útboði lauk var tilkynnt að Strætó bs. hefði gengið að tilboði Hagvagna hf. í stóran hluta verksins. Seinna hefði komið í ljós að Hagvagnar hefðu ekki uppfyllt skilyrði útboðsins hvað vagnakost varðaði og Strætó bs. hefði því haft vagnaskipti við félagið til að hjálpa því að uppfylla útboðsskilyrði. Taldi Allrahanda ehf. þetta vera brot á jafnræðisreglu þar sem Strætó hefði sérstaklega styrkt eitt fyrirtæki á eigin kostnað og því hefði ekki verið jafnræði milli bjóðenda.

Í dómi héraðsdóms er fallist á þessa röksemdafærslu Allrahanda ehf. og það sagt augljóst að brotið sé á jafnræði bjóðenda ef einn þeirra kemst upp með að halda því opnu hvernig og hvort hann muni uppfylla skilyrði útboðslýsingar. Allrahanda ehf. eigi því að fá skaðabætur vegna þess missis hagnaðar sem félagið varð fyrir.

Þurfa að fara yfir málið

í frétt sem birtist í Morgunblaðinu í dag segir Bryndís stjórn Strætó bs. ætla að fara yfir málið á föstudaginn og taka þá afstöðu til þess hvort ástæða sé til að áfrýja dómnum.

„Okkar fyrsta hugsun er hvort við munum áfrýja þessu, við þurfum að taka okkur tíma til að fara vandlega yfir þetta og sjá hvort það er ekki full ástæða til að gera það,“ segir Bryndís en hún segir niðurstöðuna hafa komið á óvart þar sem enginn hjá Strætó hafi talið sig vera að brjóta á neinum við framkvæmd útboðsins. „Þetta er gamalt mál og fyrir tíð þeirrar stjórnar sem nú situr, ég er viss um að þeir sem sátu í stjórn á þessum tíma höfðu einungis hagsmuni Strætó í huga,“ bætir hún við.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert