Brýtur upp kyrrstöðu í Evrópu

Óttarr Proppé er formaður Bjartrar framtíðar.
Óttarr Proppé er formaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Styrmir Kári

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, segir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu Breta varðandi úrsögn úr Evrópusambandinu koma sér á óvart miðað við umræðuna eins og hún hafði verið að þróast í Bretlandi. „En kannski er niðurstaðan lýsandi fyrir hvað við búum á óljósum tímum og hvað fólk er að mörgu leyti óöruggt í heiminum,“ segir Óttarr í samtali við mbl.is.

Hann segist hafa áhyggjur af því að niðurstaðan leiði til breytinga á ýmsu, bæði í Bretlandi og í Evrópu. „Það er erfitt að átta sig á því núna hvort þær verði til góðs eða ills en það er augljóst að þetta brýtur upp kyrrstöðu í Evrópu. Sagan segir okkur að það eru sjaldnast góðar fréttir.“

Seinki umræðu um ESB hér á landi

Óttarr segir erfitt að segja til um áhrifin á Ísland. „En það er ljóst að Evrópusambandið og evrópsk samvinna er í miklu uppnámi og það hlýtur að hafa áhrif á umræðuna hér á landi gagnvart Evrópu.“ Spurður hvort hann haldi að niðurstaðan hafi áhrif á mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu segir Óttarr að sér finnist líklegt að því máli muni alla vega seinka því að Íslendingar fari að ræða það að nýju.

„En núna fara Bretar væntanlega að endurskoða sína samvinnu við önnur lönd í Evrópu sem hefur auðvitað áhrif á okkur, bæði í gegnum EFTA og EEA og auðvitað beint samband okkar við Breta. Þá gæti þetta flýtt fyrir sjálfstæði Skota.“

David Cameron, fráfarandi forsætisráðherra Bretlands, sagði af sér í morgun eftir að niðurstaðan kom í ljós. Óttarr segir það ekki hafa komið sér á óvart. „Hann auðvitað byrjaði þetta ævintýri kokhraustur og treysti því að ekki yrði úr þessu. Það er augljóst að Cameron er stóri taparinn í þessu máli og það mun hafa áhrif á hvernig hans verður minnst.“

Óttar segist hafa heyrt í mörgum samstarfsmönnum og vinum í Bretlandi í dag og segir að útkoman hafi komið mörgum á óvart. „Það er náttúrulega gríðarleg óvissa í gangi. Ég hef heyrt að vinnustaðir í Bretlandi séu einfaldlega lamaðir í dag. Þetta eru svo sannarlega skrýtnir tímar.“

mbl.is