Engum dulist að flugöryggi er ógnað

Keflavíkurflugvöllur.
Keflavíkurflugvöllur. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Öryggisnefnd íslenskra flugumferðarstjóra segir afstöðu ISAVIA, um það ástand sem kom upp í gær þegar aðeins einn flugumferðarstjóri var á vakt í átta klukkustundir, jafnvel vera alvarlegri en þá staðreynd að aðeins einn var á vakt. Í yfirlýsingu er vísað til fréttar mbl.is í gær um málið þar sem haft er eftir forsvarsmönnum ISAVIA að þetta hefði aðeins áhrif á „eina og eina vél.“

Frétt mbl.is: Flugturninn nánast mannlaus

„Öryggisnefnd Félags íslenskra flugumferðarstjóra telur þetta viðhorf ISAVA jafnvel alvarlegra en fréttina sjálfa. Þegar flugöryggi er annars vegar getur svona ástand í flugturni aldrei samrýmst því að flugsamgöngur séu í eðlilegu horfi,“ segir í tilkynningu frá öryggisnefndinni.

Segir þar að mikið ábyrgðarleysi sé fólgið í því að draga úr alvarleika þeirrar „fordæmalausu stöðu“ sem skapaðist þennan dag.

Bent er á að álag á flugumferðarstjóra hafi aukist gífurlega á undanförnum árum með síaukinni flugumferð um íslenska flugvelli og íslenska flugstjórnarsvæðið. Á sama tíma standi fjöldi flugumferðarstjóra sem starfa á Íslandi nánast í stað og segir nefndin að yfirvinna þeirra til þess að halda flugumferðinni gangandi sé löngu orðin óhófleg.

„Viðbrögð Isavia hafa sýnt sig vera ófullnægjandi til að bregðast við ástandinu og engum getur lengur dulist að flugöryggi er ógnað. Þess vegna er tafarlausra úrbóta þörf,“ segir að lokum í tilkynningu öryggisnefndarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert