Verður öllum lógað

Fjarlægja þurfti auga þessarar læðu sem bjó á heimilinu. Kettirnir …
Fjarlægja þurfti auga þessarar læðu sem bjó á heimilinu. Kettirnir búa við afar slæmar aðstæður. Ljósmynd/ Félagið Villikettir

Eigandi kattanna 100 og hundanna sjö sem allir bjuggu á einu heimili hefur frest fram á föstudag til að koma dýrunum fyrir annars staðar. Annars mun Matvælastofnun taka endanlega ákvörðun um örlög þeirra á mánudag og þykir ljóst að þeim verði þá öllum lógað. Nokkrir tugir katta búa enn á heimilinu við illar aðstæður.

Þorði ekki að opna bréfið

Félagið Villikettir hefur á síðustu mánuðum fjarlægt 57 ketti af heimilinu. Allir kettirnir glímdu við veikindi enda hafði lítið verið um mat og vatn á heimilinu, hitastig var mjög breytilegt og óþrifnaður mikill.

Olga Perla Nielsen, formaður Villikatta, segir eigandann hafa fengið bréf frá Matvælastofnun, sem fer með dýravelferðarmál, fyrir nokkru en ekki þorað að opna það. Í kjölfar umfjöllunar í gær ákvað hann að opna bréfið og þá hafi komið í ljós að hann hefði frest fram á föstudag til að bæta úr. Endanleg ákvörðun verði tekin á mánudag.

„Þetta er náttúrlega rosalega stuttur fyrirvari fyrir okkur til að bjarga restinni,“ segir Olga. Á þeim tíma sem liðinn er frá því Villikettir gátu síðast sótt ketti í húsnæðið hafa fæðst 16 kettlingar til viðbótar og eitthvað er af kettlingafullum læðum. 

Olga segir nokkuð ljóst að ekki muni nást að bjarga öllum dýrunum. Villikettir ætli að reyna að taka eins marga og mögulegt er en meðal kattanna séu margir mjög styggir og hræddir sem geti tekið langan tíma að aðlaga að hefðbundnu heimilislífi. 

Fastar í símanum

Olga segir stjórnarkonur Villikatta vilja sjá MAST grípa til annarra úrræða en lógunar. Stofnunin hafi hins vegar ekkert húsnæði og það taki tíma að finna fósturheimili, því séu úrræðin í raun engin.

„Vonandi er framtíðin þannig en eins og er hafa þeir ekkert getað svarað okkur. Það er eitthvert fólk í sumarfríi þannig að við náum ekkert þarna inn núna,“ segir Olga. 

„Núna erum við bara fastar í símanum, hringjandi út um allt. Við ætlum að koma við í dag og taka kettlingana og læðurnar. Svo veit ég ekki meir.“

Olga segir að nú reyni félagið að virkja fósturheimili auk þess sem margir hafi haft samband síðustu daga og boðið fram aðstoð. Hún segir helstu leið almennings til að hjálpa vera þá að gerast fósturfjölskyldur svo hægt sé að koma dýrunum af heimilinu fyrir föstudaginn. Þá er hægt að hjálpa félaginu með styrkjum enda kosta læknisheimsóknir, fæði og sandur sitt.

 Frek­ari upp­lýs­ing­ar um Villiketti og hvernig styðja má starfið má finna með því að smella hér.

Hægt er að styrkja fé­lagið í gegn­um reikn­ings­núm­erið: 0111-26-73030 og  kenni­tölu: 710314-1790.

 Uppfært 12:39
Upprunalega stóð í fréttinni að dýrunum yrði lógað á föstudaginn. Það reyndist á misskilningi byggt og hefur það verið leiðrétt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert