Eiðurinn frumsýndur á kvikmyndahátíð í Toronto

Eiðurinn segir frá hjartaskurðlækninum Finni sem áttar sig á að …
Eiðurinn segir frá hjartaskurðlækninum Finni sem áttar sig á að dóttir hans er komin í neyslu og að nýr kærasti hennar er þekktur dópsali.

Eiðurinn, nýjasta kvikmynd Baltasars Kormáks, verður heimsfrumsýnd á alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Toronto, Toronto International Film Festival. Myndin verður sýnd í flokkinum Special Presentations, en Toronto-hátíðin er haldin dagana 8.-18. september.

Myndin segir frá hjartaskurðlækninum Finni sem þykir skara fram úr í starfi sínu. Þegar hann áttar sig á að dóttir hans er komin í neyslu og kynnir þekktan dópsala fyrir fjölskyldunni sem nýja kærastann koma fram brestir í einkalífinu. Finnur ákveður að taka í taumana og er staðráðinn í að koma dótturinni á réttan kjöl, hvað sem það kostar.

Baltasar Kormákur leikstýrir og skrifar handritið að Eiðinum ásamt Ólafi Agli Egilssyni, en í aðalhlutverkum eru Baltasar Kormákur, Hera Hilmarsdóttir og Gísli Örn Garðarsson. Myndin er sú fyrsta sem Baltasar Kormákur leikur í frá því hann lék í kvikmynd Óskars Jónassonar, Reykjavík Rotterdam, árið 2008.

Eiðurinn verður frumsýnd hérlendis hinn 9. september næstkomandi, um sömu helgi og hún verður frumsýnd á Toronto-hátíðinni.

Þess má geta að í fyrra voru fyrstu tveir þættir sjónvarpsþáttaraðarinnar Ófærðar frumsýndir í Primetime-hluta Toronto-hátíðarinnar og sömuleiðis var Djúpið, síðasta íslenska kvikmynd Baltasars sem leikstjóra á undan Eiðnum, frumsýnd í Special Presentations-flokki hátíðarinnar árið 2012.

mbl.is