Ný vísbending sögð sanna sakleysi Sævars Ciesielski

Vísbendingin þykir styðja mjög við kröfuna um endurupptöku málsins.
Vísbendingin þykir styðja mjög við kröfuna um endurupptöku málsins.

Nýjar vísbendingar sem fram koma í óútgefinni bók blaðamannsins Jóns Daníelssonar eru sagðar sanna sakleysi Sævars Ciesielski og þar með annarra sakborninga í Guðmundar og Geirfinnsmálinu. Þetta segir Ragnar Aðalsteinsson, einn verjenda sakborninga í málinu, en það er RÚV sem greinir frá málinu.

Endurupptökunefnd hefur fengið ítarlegar upplýsingar um málið en í óútkominni bók Jóns Daníelssonar um Guðmundar- og Geirfinnsmálið er ljósi varpað á mögulega fjarvistarsönnun Sævars Marinós Ciesielski í Geirfinnsmálinu. Mun Sævar hafa sýnt fram á sakleysi sitt eftir að hafa setið í 21 mánuð í gæsluvarðhaldi þegar hann sendi saksóknara bréf um fjarvistir kvöldið sem hann átti að hafa myrt Geirfinn. Greinir Sævar frá því í bréfinu að umrætt kvöld hafi hann horft á þátt í sjónvarpinu og lýsir hann innihaldi þáttarins með nákvæmum hætti í bréfinu.

Sterk ábending jaðrar við sönnun

„Hún [vísbendingin] styður mjög við kröfuna um endurupptöku málsins, og sýnir að ekki voru ætíð rannsökuð nægilega vel þau atriði sem horfðu til sýknu sakborninganna, og það á við um þá alla,“ segir Ragnar Aðalsteinsson í samtali við mbl.is.

Segir Ragnar að í þessu tilviki séu mjög sterkar ábendingar sem jaðra við sönnun þess að Sævar Marinó Ciesielski hafi verið heima hjá móður sinni þann 19. nóvember 1974,  kvöldið sem Geirfinnur Einarsson er talinn hafa horfið.

Byggist vísbendingin á því að Sævari tókst að lýsa heimildakvikmynd sem hann kveðst hafa horft á á heimili móður sinnar umrætt kvöld. Gat hann lýst það mörgum atriðum í myndinni að þykir sannfærandi að hann hafi séð myndina, „og þar sem hann var í einangrun þá er ótrúlegt að hann hafi getað fengið upplýsingar um þessa mynd annarsstaðar frá,“ segir Ragnar.

Vísbendingin var í skjölum málsins að sögn Ragnars, „en hvorki lögreglan, ákæruvaldið eða dómstólar gerðu nokkuð við þessar upplýsingar og létu undir höfuð leggjast að rannsaka þær eins og þeim var skylt.“

„Trúin á sekt þeirra var svo rík“

Ragnar segir að samskonar atvik hafi komið upp hjá einum fjórmenninganna svokallaðra en þá hafi strax farið fram rannsókn. Hafði einn þeirra horft á íþróttamynd þetta sama kvöld, rétt á undan heimildarmyndinni sem Sævar segist hafa séð. „Þá fór fram rannsókn að þessu tilefni en það var ekki gert í tilvikum Sævars Marinós og annarra, líklega vegna þess að trúin á sekt þeirra var svo rík,“ segir Ragnar.

Umrædd heimildamynd kom að sögn Ragnars á YouTube í fyrra og þess vegna er hægt að skoða hana núna sem ekki var hægt áður.

Að því er fram kemur í frétt RÚV er áætlað að bók Jóns Daníelssonar komi út í september en hann hefur lengi unnið að bókinni. Þá segir Jón Daníelsson við RÚV að fleiri vísbendingar muni koma fram í bókinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina