Minningargrein í stað afmæliskveðju

Logi Geirsson.
Logi Geirsson. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Logi Geirsson handboltasérfræðingur fór fögrum orðum um föður sinn í færslu sem hann birti á Facebook-síðu sinni í tilefni af 70 ára afmæli pabba síns. Ritstíllinn minnir e.t.v. á minningargrein frekar en afmæliskveðju og er það með ráðum gert.

Undanfarið hafa verið margar fréttir af sviplegum andlátum í samfélaginu okkar. Svo les maður minningargreinar á Facebook eða blöðunum og hugsar, væri ekki gaman að leyfa fólki að lesa minningargreinina sína lifandi? Það sem ég á við er að hrósa fólki og segja við það hversu vænt ykkur þykir um það þegar það er lifandi og jafnvel deila og minnast góðra stunda og hlæja saman áður en það verður of seint!“ skrifar Logi.

Með færslunni birtir hann mynd af foreldrum sínum sem tekin var fyrir tveimur árum. „Það sést kannski ekki á þessari mynd sem var tekin fyrir 2 árum en þarna heldur móðir mín í hann eins og klett um það leyti sem heilasjúkdómurinn var að ná yfirhöndinni,“ skrifar Logi. 

Þarna var hún hætt að rata og fleira furðulegt dundi yfir hana. Í dag er hún bundin 24/7 í hjólastól og komin á Hrafnistu. Pabbi er mættur þangað alla daga, sækir hana og fer með hana á rúntinn og oft á tíðum margar klukkustundir.

Lýsir Logi því hvernig faðir hans gengur með móður hans heim á heimilið þeirra og lætur hana sitja í garðinum fylgjast með barnabörnunum vaxa úr grasi. „Að eignast stóra fjölskyldu var draumurinn hennar. Pabbi málar mömmu, setur á hana naglalakk, fæðir hana og klæðir, og ver með henni öllum stundum sem hann getur þrátt fyrir að hún geti ekkert tjáð sig,“ skrifar Logi. „Þetta er sönn ÁST. En ástin er svona eins og vindurinn, þú sérð hann ekki en þú veist að hann er þarna.“

Enginn er ómissandi á vinnustaðnum

Logi hvetur vini sína til þess að verja tíma með þeim sem mestu máli skipta. „Ef við deyjum á morgun myndi fyrirtækið sem við vinnum hjá ráða einhvern annan í okkar stað. Enginn er ómissandi á vinnustaðnum.

En missirinn fyrir ástvini okkar yrði óbætanlegur og myndi fylgja þeim alla ævi. Staðreyndin er að við erum allt of oft að forgangsraða vitlaust,“ skrifar Logi og endar færsluna á: „Elska þig pabbi minn, til hamingju með 70 árin og takk fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig, þú ert fyrirmyndin mín.“

Færslu Loga má lesa í heild sinni hér fyrir neðan:

 

 

mbl.is