Þyrfti landvörslu allan sólarhringinn

Reykjadalur.
Reykjadalur. Rax / Ragnar Axelsson

Stöðugur straumur ferðafólks er inn í Reykjadal ofan Hveragerðis og hefur verið í allt sumar. Líklega leggja um 500 manns leið sína inn í dalinn á hverjum degi, á öllum tímum sólarhringsins. Bílastæðið fyrir neðan gönguleiðina er löngu sprungið og nær bílaröðin langt meðfram götunni.

Flestir leggja á sig tæplega klukkustundar fjallgöngu til að baða sig í heitu ánni og fara ýmist gangandi, hjólandi eða ríðandi á hestum inn dalinn. Þegar blaðamann og ljósmyndara Morgunblaðsins bar að garði fyrir hádegi í gærmorgun voru bílastæðin orðin full. Fólk á öllum aldri gekk inn dalinn í rólegheitum í góðu veðri. Töluvert var um fjölskyldufólk með börn á öllum aldri. Flestir voru í góðum skóm en eitt par var þó í sundtöflum.

Göngustígar á svæðinu eru nokkuð góðir en leðja á nokkrum stöðum, sérstaklega í kringum hestagerði sem hefur verið komið upp. Í kringum heita lækinn þar sem fólk baðar sig notuðu margir krossgerði sem hafa verið reist á nokkrum stöðum til að skipta um föt. Í kringum baðsvæðið er orðið töluvert úttroðið.

Umgengni ábótavant

„Rætt hefur verið um að Reykjadalur og svæðið vestan og austan við hann fari alveg undir stjórn ríkisins því þar þarf að vera landvörður allan sólarhringinn sem myndi líta eftir svæðinu. Það eru um 100 þúsund manns sem fara þarna inn á ári, að lágmarki. Umgengnin verður því ekki góð miðað við þennan fjölda. Fólk heldur greinilega oft partí þarna og skilur eftir sig sundföt, handklæði og rusl. Ekkert salerni er til staðar og fólk þarf að gera þarfir sínar og skilur þá eftir sig hvítan pappír,“ segir Sigurður Ósmann Jónsson sem hefur haft umsjón með framkvæmdum í Reykjadal um árabil og er jafnframt byggingar- og skipulagsfulltrúi Ölfuss.

Lagfæring á gönguleiðum, að afmarka hættusvæði þar sem hverir eru og salernismálin eru það brýnasta sem þarf að leysa í Reykjadal að mati Sigurðar sem bendir á að snúið gæti verið að leysa þann þátt. „Ef það yrði sett upp við heita lækinn er ekki einfalt að losa það, því losunarbíll kemst ekki að svæðinu. Það þyrfti að notast við einhverjar kemískar lausnir, sem einnig þarf að losa á ákveðnu tímabili,“ segir hann.

Sigurður bendir á að fólk tjaldi í auknum mæli á svæðinu yfir nótt. Margir noti einnota grill, sem svíði jörðina, og skilji jafnvel eftir sig rusl. Bannað er að tjalda og vera með opinn eld s.s. grill. Engin ruslafata er á svæðinu því enginn er til staðar til að sinna eftirliti og tæma þær.

Fjölmargir leggja leið sína á svæðið, hjóla, ganga og skokka. „Margir fara ekki eftir stígunum. Búið er að troða gönguleiðir víða út með því að búa til nýja stíga og það er ekki gott,“ segir Sigurður. Til að stýra umferð og aðgangi fólks á svæðið hefur verið rætt um hvort ein leið sé gjaldtaka, segir hann. „Það væri líka hægt að vernda svæðið með takmörkun. Það þekkja erlendir ferðamenn úr heimalandi sínu, þeir fara t.d. ekki inn á svæði þar nema í fylgd þjóðgarðsvarðar,“ segir Sigurður.

Hjá ferðaþjónustufyrirtækjum er Reykjadalur seldur sem einn af áhugaverðustu stöðunum í nágrenni Reykjavíkur. Töluverðar framkvæmdir hafa verið á svæðinu frá árinu 2012 sem miða að því að sporna gegn átroðningi ferðafólks. Þar hafa m.a. verið lagðir göngustígar, reistar brýr, byggðir pallar við heita lækinn og sett upp krossgerði á þeim svo fólk geti skipt um föt.

Einnig eru hestagerði á tveimur stöðum svo þeir sem koma ríðandi inn í dalinn geti geymt hestana og gengið að heita læknum. Þrátt fyrir það er enn þörf á úrbótum. Í ár var áætlað að verja um 20 milljónum króna til að laga svæðið. Styrkir að upphæð átta milljónir koma frá Ferðamálastofu í verkefni. Reykjadalur er í eigu ríkisins en Landbúnaðarháskólinn, LBHÍ að Reykjum, hefur umsjón með verkefninu. Skipulagsvaldið er hjá Sveitarfélaginu Ölfusi og er unnið að endurbótum í samstarfi við LBHÍ, Hveragerðisbæ og Eldhesta ehf.

Talsverðra úrbóta er enn þörf í Reykjadal vegna átroðnings.
Talsverðra úrbóta er enn þörf í Reykjadal vegna átroðnings. Rax / Ragnar Axelsson
Fjölmargir leggja leið sína á svæðið, hjóla, ganga og skokka.
Fjölmargir leggja leið sína á svæðið, hjóla, ganga og skokka. Rax / Ragnar Axelsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »