Svarar ekki bréfi um loftslagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra kynnir sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar ásamt þáverandi forsætis- og …
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra kynnir sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar ásamt þáverandi forsætis- og utanríkisráðherra. Náttúruverndarsamtök Íslands segja áætlunina þunna í roðinu. mbl.is/Rax

Umhverfisráðuneytið hefur enn ekki svarað bréfi sem Náttúruverndarsamtök Ísland sendu því í febrúar þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvernig ríkisstjórnin ætlaði að ná markmiðum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda í aðdraganda Parísarfundarins í fyrra. Samtökin gagnrýna stjórnvöld fyrir aðgerðaleysi í loftslagsmálum.

Markmiðin sem um ræðir voru tilgreind í sameiginlegri yfirlýsingu umhverfisráðherra Norðurlandanna í október. Í skýrslu stjórnar Náttúruverndarsamtakanna sem samþykkt var á aðalfundi þeirra í gærkvöldi er fullyrt að ríkisstjórnin hafi enga stefnu mótað um hvernig Ísland eigi að draga úr eða geti dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40% fyrir árið 2030.

Bent er á að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, hafi dregið ummæli sem hann lét falla á leiðtogafundi um sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna um að Ísland hafi heitið því að draga úr losun um 40% fyrir það ár snarlega til baka þegar Náttúruverndarsamtökin fögnuðu þeim. Í raun hafi hann átt við að Ísland tæki þátt í sameiginlegu markmiði Evrópusambandsríkja um að draga úr losun sem þessu nemur.

Frétt mbl.is: Afdráttarlausari um minni losun

„Ekki verður annað ráðið af ummælum Sigmundar Davíðs en að markmið sitjandi ríkisstjórnar [sé] að ná samningum við Evrópusambandið um að framlag Íslands til hins sameiginlega
markmiðs ESB um 40% samdrátt verði með allra smæsta móti,“ segir í skýrslu stjórnarinnar.

Frétt mbl.is: 40% með Evrópusambandinu

Sóknaráætlun sögð þunn í roðinu

Þá sætir sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum sem kynnt var rétt fyrir loftslagsfundinn í París harðri gagnrýni í skýrslu Náttúruverndarsamtakanna. Áætlunin er sögð þunn í roðinu þar sem lítið hafi verið í henni að finna um hversu mikið skuli draga úr losun og fyrir hvaða tíma.

Iðnaðarráðherra verði tíðrætt um orkuskipti í samgöngum en enn hafi ekkert komið fram
um hverju slík skipti eiga að skila í minni losun gróðurhúsalofttegunda. Stefnumörkun
umhverfisráðherra gegn matarsóun sé sögð draga úr losun gróðurhúsalofttegunda en ekki
segi hversu mikið.

Náttúruverndarsamtökin fullyrða að upplýsingar um stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum virðist stundum koma úr penna almannatengla. Nefna þau dæmi úr skýrslu um matarsóun þar sem segir að síðustu sjö árin hafi dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda frá úrgangi en á árabilinu
1990–2007 hafði losunin stöðugt aukist.

Í sjálfu sé það ekki rangt en í skýrslu Íslands til loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna komi fram að heildarlosun frá úrgangi hafi aukist um 35% frá árinu 1990 sem er bæði viðmiðunarár seinna skuldbindingatímabils Kyoto-bókunarinnar og loftslagssamningsins sem var samþykktur í París.

mbl.is

Bloggað um fréttina