Búin að slá núverandi heimsmet

Ferðalangarnir með Pocket Bike-hjól áður en lagt var af stað …
Ferðalangarnir með Pocket Bike-hjól áður en lagt var af stað í 2.500 km ferðalag. Ljósmynd/Sigríður Ýr

Ferðalag þeirra Sig­ríðar Ýrar Unnarsdóttur, Michaels Reid og Chris Fabre, sem freista þess nú að komast í heimsmetabók Guinness fyrir lengstu vegalengdina sem ferðast hefur verið á svonefndu Pocket Bike-hjóli, gengur framar vonum og hafa þau þegar slegið núverandi heimsmet sem var sett 8. ág­úst 2009 þegar þeir Ryan Gal­braith og Chris Stin­son óku 718 kíló­metra leið.

Þegar mbl.is náði í Sigríði Ýri síðdegis í gær voru þau búin að leggja að baki tæplega 2.000 km af 2.500 km ferðalagi sínu á rúmri viku og voru stödd í Logan í  Nýju-Mexíkó. Þar voru ferðalangarnir einungis í dagsfjarlægð frá endastöðinni Mescalero, þar sem þau gera ráð fyrir að ljúka ferðalaginu á mótorhjólahátíðinni Golden Aspen Motorcycle Rally næsta laugardag.

Sigríður Ýr fékk tveggja tíma æfingu við að starta hjólinu …
Sigríður Ýr fékk tveggja tíma æfingu við að starta hjólinu og skipta um gíra áður en lagt var af stað. Ljósmynd/Sigríður Ýr

„Við lögðum af stað frá Middletown í Ohio á mánudeginum fyrir viku, 5. september, og höfðum gert ráð fyrir að fara 150 mílur á dag (240 km) en hjólin náðu meiri hraða en við reiknuðum með þannig að við vorum að ná að ferðast 200 mílur á dag,“ segir Sigríður Ýr. „Við héldum að við næðum ekki meira en svona 40-45 km hraða, en annað kom í ljós.“ Meðalhraði þeirra á ferðalaginu er búinn að vera 50-55 km/klst.

Tveggja tíma æfing á bílastæði fyrir ferðina

Fyrir vikið hafa þau náð að bæta inn kærkomnum hvíldardögum eftir langa og krefjandi daga á hjólinu. „Þannig að núna erum við að taka því rólega í Nýju-Mexíkó og skoða okkur um.“

Sigríður Ýr, Michel og Chris eru hvert á sínu hjólinu og Chris, sem er bifvélavirki sér um viðhald hjólanna á ferðalaginu.

Sigríður Ýr hafði aldrei keyrt mótorhjól áður en þau lögðu af stað í ferðalagið og raunar hafði hún ekki séð Pocket Bike-hjól áður, fyrr en á hringferð sinni um Bandaríkin fyrr í sumar. „Ég hafði aldrei keyrt mótorhjól áður og fékk að æfa mig í að starta hjólinu og skipta um gíra í sirka tvo tíma á bílastæði áður en við lögðum af stað í þetta langa ferðalag.“

Þríeykinu hefur alls staðar verið vel tekið og margir eru …
Þríeykinu hefur alls staðar verið vel tekið og margir eru forvitnir um sögu þeirra. Ljósmynd/Sigríður Ýr

Hún segir ferðina hafa gengið vel hingað til. „Við höfum verið heppin með veður. Höfum fengið smá rigningu og rok, en annars hefur þetta bara verið sól og blíða.“

Áskorun að vera klukkustundum saman í keng

Það horfði þó ekki byrlega með þátttöku hennar í ævintýrinu þar sem hún fékk nýrnasýkingu daginn áður en þau lögðu af stað. „Þetta leit ekki vel út í byrjun,“ segir hún og viðurkennir að það hafi vissulega verið krefjandi að sitja á hjólinu við þessar aðstæður. „Ég náði í sýklalyf sem slógu á verkina og ógleðina sem fylgir, en það er óneitanlega áskorun að sitja klukkustundum saman í keng þegar maður er verkjaður. En maður lætur sig bara hafa það og reynir að teygja á og rétta úr sér í hvert skipti sem við stoppum til að taka bensín.“

Spurð hvort foreldrar hennar hafi ekki áhyggjur af ferðalagi hennar þegar svo sé, þá hlær hún og segir þau þekkja sig vel. „Foreldrar mínir hafa fulla trú á mér. Þau vita að ég er þrjósk, en að ég þekki líka mín mörk þannig að þau hafa ekki áhyggjur.“

Þríeykinu hefur alls staðar verið vel tekið á ferð sinni í gegnum miðhluta Bandaríkjanna og hefur ferðin að stærstum hluta verið farin eftir sveitavegum.

„Við höfum fengið rosalega góð viðbrögð,“ segir Sigríður Ýr. „Margir stoppa okkur og biðja um myndir eða eiginhandaráritun og svo vilja aðrir heyra sögu okkar.“

Sigríður Ýr segir áhugavert að ferðast svona hægt því þá …
Sigríður Ýr segir áhugavert að ferðast svona hægt því þá sjái þau ýmislegt á vegunum sem maður venjulega missi af. Ljósmynd/Sigríður Ýr

Þeim fylgir merktur fylgdarbíll, þannig að það fer ekki fram hjá þeim sem verða á leið þeirra að þarna er verið að reyna að slá heimsmet á Pocket Bike-hjólum.

Einu sinni verið stoppuð af löggunni

Hún segir mörgum koma á óvart að Pocket Bike-hjólin séu ætluð börnum. Hjólin eru ekki leyfileg til götuaksturs og því kemur það mörgum ekki síður á óvart að sjá þau aka á þeim á almennum vegum.

Þríeykið varð enda að fara í gegnum flókið skráningarferli til að fá númeraplötur á hjólin áður en lagt var af stað. „Við þurftum að bæta við ljósabúnaði, bremsuljósum, stefnuljósum, baksýnisspeglum, hleðslukerfum og ýmsu fleiri og svo þurftum við að hafa samband við þó nokkur ríki Bandaríkjanna til að finna út hvar við gætum skráð hjólin.“

Þau hafa líka einu sinni verið stöðvuð af lögreglunni. „Hún hafði fengið ábendingu um ólögleg hjól á götunni, en við vorum undirbúin því ég hafði hringt fyrir fram í öll lögregluumdæmi og fengið leyfi. Við vorum með skráningarpappírana með okkur og öll önnur nauðsynleg gögn, þannig að hann sleppti okkur.“

„Annars hefur þetta gengið vel og það er mjög áhugavert að ferðast svona hægt,“ segir hún. „Við sjáum ýmsa hluti á veginum sem maður missir venjulega af og við höfum t.d. í tvígang séð skjaldbökur á miðjum veginum. Þá höfum við stoppað og borið þær yfir götuna til að koma þeim úr hættu,“ segir Sigríður Ýr og hlær.

„Síðan höfum við verum með fjáröflun í gangi til styrktar uppgjafahermönnum sem hefur verið tekið mjög vel. Við höfum m.a. fengið ýmiss konar fjárframlög frá einstaklingum sem við hittum á leið okkar og þá hefur okkur boðist að gista frítt á tjaldstæðum.“

Minnsta vinnan að setjast á hjólið

 Það er ekki hlaupið að því að setja heimsmet og segir Sigríður Ýr léttasta hlutann vera að setjast á hjólið á hverjum degi. „Við tókum mánuð í undirbúning og erum að skrásetja allt frá morgni til kvölds  og svo er heilmikil eftirvinna að ganga frá gögnunum,“ segir hún.

Skrásetja þarf ferðalagið vandlega til að standast kröfur Heimsmetabókar Guinness.
Skrásetja þarf ferðalagið vandlega til að standast kröfur Heimsmetabókar Guinness. Ljósmynd/Sigríður Ýr

Þríeykið er með þrjár upptökuvélar og tvö staðsetningartæki, auk þess að skrásetja allt sem þau gera með vitnalista, safna öllum kvittunum og taka ljósmyndir til að sanna staðsetningu hverju sinni.

„Guinness er með mjög strangar reglur og krefjast þess að allt hafi 100% farið rétt fram,“ segir Sigríður Ýr. Þau þurfi því að krossa puttana og vona að Guinness samþykki metið þegar gögnin verða að send inn, en Guinness er t.d. ekki enn búið að staðfesta heimsmetstilraun frá 2014 þegar 2.264 kíló­metr­ar voru eknir á Pocket Bike-hjóli.

Blaðamanni leikur forvitni á að vita hvort Sigríður Ýr sjái fyrir sér að setjast aftur á Pocket Bike-hjól að ferðinni lokinni.

Hún hlær að spurningunni og segir svo: „Við fengum þessi hjól frá styrktaraðila, sem mun fá hjólin aftur eftir heimsmetið. Ég gæti hins vegar alveg hugsað mér að prófa svona hjól aftur seinna og hefði ekkert á móti því að taka mótorhjólapróf eftir þetta því það er alveg ótrúlegt frelsi sem fylgir því að vera á mótorhjóli.“

Heimsmetstilraunina er hægt að styrkja á slóðinni fundraising.globalmikereid.com

Hafði aldrei séð svona hjól

Þríeykið hóf för í Middletown, Ohio, og ferðinni lýkur á …
Þríeykið hóf för í Middletown, Ohio, og ferðinni lýkur á laugardag í Mescalero. mbl
mbl.is