Þurfa að fjölmenna í herbergi

100 manns hafa sótt um hæli hér á landi það …
100 manns hafa sótt um hæli hér á landi það sem af er septembermánuði. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Húsnæði sem hælisleitendur dvelja í á vegum Útlendingastofnunnar og samstarfsaðila hennar eru yfirfull. Fólk þarf að fjölmenna í herbergi eða sofa frammi á göngum að því er fréttastofa RÚV greinir fá.

67 manns sóttu um hæli hér á landi í síðasta mánuði og þegar hafa 100 manns sótt um hæli það sem af er þessum mánuði. Aldrei hafa fleiri sótt um hæli hér á landi í einum mánuði og gerir þessi mikli fjöldi umsókna það að verkum að húsnæði á vegum Útlendingastofnunnar eða samstarfsaðila er orðið yfirfullt.

Um 500 umsækjendur um alþjóðlega vernd búa nú í húsnæði á vegum stofnunarinnar og er algengt að fólk dvelji þar í 6 til 8 mánuði.

Haft er eftir Þorsteini Gunnarssyni deildarstjóra og staðgengli forstjóra hjá Útlendingastofnun, að Útlendingastofnun reyni að tryggja öllum umsækjendum þak yfir höfuðið á meðan þeir bíða. „Það þýðir það að í einhverjum tilfellum þarf að fjölmenna í herbergi og í einhverjum tilfellum hefur fólk neyðst til að sofa úti á gangi hjá okkur,“ segir Þorsteinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert