Grunur um dýraníð í Hörgársveit

Úr fjárréttum í haust - myndin er úr safni og …
Úr fjárréttum í haust - myndin er úr safni og er ekki tekin í Þverárrétt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Grunur er um dýraníð í Hörgárdal í síðasta mánuði er lambi var misþyrmt hrottalega við smalamennsku aðra helgina í september.

Vitni voru að níðinu en samkvæmt upplýsingum frá fólki í Hörgársveit var verið að smala fé af fjalli fyrir sveitarfélagið og var hópurinn allur kominn yfir Hringveginn skammt frá Þelamörk fyrir utan eitt lamb sem var örmagna. Í stað þess að bera lambið yfir veginn eða taka það upp í bíl lyfti einn þeirra sem annaðist smölunina  lambinu upp og kastaði því frá sér áður en hann gekk í skrokk á því, sparkaði í það og stappaði á hálsi þess. Var fólki mjög brugðið en ekki er vitað til þss að neinn sem varð vitni að níðinu hafi tilkynnt málið til yfirvalda.

Það var síðar þennan sama dag að lamb finnst lamað í Þverárrétt og óskaði héraðsdýralæknir eftir því að slá lambið af og kryfja það síðan. Eigandi lambsins neitaði því og urðaði lambið sjálfur. Því er ekki hægt að að sanna að um sama lamb sé að ræða og það sem varð fyrir níðinu.

Mbl.is hefur rætt við fjölda fólks vegna málsins og virðist sem flestir í sveitinni viti af því. Hins vegar hefur fólk ekki viljað tjá sig um málið undir nafni og eins vildi eigandi lambsins ekki tjá sig þegar eftir því var leitað.

Um smölun á vegum Hörgársveitar var að ræða og samkvæmt heimildum mbl.is var það einn þeirra sem fékk greitt fyrir að smala fé fyrir sveitarfélagið sem gekk í skrokk á dýrinu.

Oddviti Hörgársveitar, Axel Grettisson, staðfestir að hann hafi heyrt af málinu en segir að það hafi ekki komið á borð sveitarfélagsins þannig að hann vildi ekki tjá sig um málið.

Ólafur Jónsson, héraðsdýralæknir á Akureyri, staðfestir að málið hafi komið til hans en þar sem hann hafi ekki fengið hræ lambsins í hendur frá eiganda þess og enginn enn skilað inn tilkynningu um málið til Matvælastofnunar þá séu hendur hans bundnar en hann hefur reynt af afla upplýsinga um málið frá því atburðurinn átti sér stað. 

Yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar, Gunnar Jóhannsson, segir að málið hafi ekki komið inn á borð rannsóknardeildarinnar en ef það verði kært þá muni lögreglan að sjálfsögðu rannsaka málið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert