Ein stjórnstöð og góð yfirsýn

Ágúst Svansson, aðalvarðstjóri, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri, Elva Tryggvadóttir, Slysavarnafélaginu …
Ágúst Svansson, aðalvarðstjóri, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri, Elva Tryggvadóttir, Slysavarnafélaginu Landsbjörg og Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Ný stjórnstöð aðgerðarstjórnar höfuðborgarsvæðisins sem nú er verið að taka í gagnið þykir hafa sannað gildi sitt strax í fyrsta verkefni. Stöðin er rekin á ábyrgð og vegum Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins (SHS) og Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu (LRH) og þaðan var björgunaraðgerðum vegna rútuslyssins á Mosfellsheiði fyrr í vikunni stýrt. Stjórnstöðin er við Skógarhlíð í Reykjavík og þar munu viðbragðsaðilar samræma vinnu sína þegar vá steðjar að. Auk slökkviliðs og lögreglu sitja í aðgerðastjórn fulltrúar Rauða krossins, Landspítalans, Slysavarnafélagsins Landsbjargar og aðrir þeir er koma að aðgerðum hverju sinni.

Aðstaðan í stjórnstöðinni nýju, sem Morgunblaðið kynnti sér í vikunni, er mjög fullkomin. Upplýsinga- og fjarskiptakerfi eru samtengd og í gegnum myndavélar á útkallabílum er hægt að sjá aðstæður á vettvangi og bregðast við samkvæmt því. Þá eru Neyðarlínan, Landsbjörg, Vaktstöð siglinga, Fjarskiptamiðstöð lögreglu, Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Landhelgisgæslan og Samhæfingarstöð almannavarna undir sama þaki í Björgunarmiðstöðinni við Skógarhlíð, sem skapar greiða gangvegi.

Sólarhringsvakt og fullkomin tæki

„Hér er vagga viðbragðs- og samhæfingar og hér er unnið samræmt starf í þágu almennings. Þetta módel hefur vakið mikla athygli og margir komið að utan til að kynna sér það. Samvinna viðbragðsaðilanna á einum stað hér þykir eftirtektarverð, en slíkt starf hefur reynst ógerlegt víða erlendis,“ segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.

Lengi hefur verið í deiglu að koma upp stjórnstöð sem þessari. Sigríður Björk segir að við stefnumótun LRH á undanförnum tveimur árum hafi komið í ljós að leggja þyrfti meiri áherslu á þátt almannavarna hjá embættinu og stjórnstöðin nýja tengist því. Í upphafi verður sá háttur hafður á að í stöðinni verður varðstjóri slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins á sólarhringsvakt og lögreglan stefnir á hið sama þegar fjárhagur og mannafli leyfir.

Rúta fór út af Þingvallavegi og lenti á hliðinni.
Rúta fór út af Þingvallavegi og lenti á hliðinni. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Uppsetning stöðvarinnar kostar tugi milljóna króna. Ber þess þá að geta að Faxaflóahafnir, Isavia og fleiri lögðu verkefninu til verulega fjármuni til tækja- og búnaðarkaupa. Þá lagði Ríkislögreglustjóri til húsnæði í Skógarhlíð, sem var forsenda fyrir því að þetta væri gerlegt. Einnig hefur almannavarnaefnd höfuðborgarsvæðisins stutt verkefnið. Neyðarlínan kom að uppsetningu stöðvarinnar með fullkomnum tækjum og búnaði og hafa sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu einnig stutt verkefnið.

Gott innlegg í traust samstarf

„Þessi aðstaða er gott innlegg í samstarf slökkviliðs og lögreglu og fleiri. Hér verður fólk í sama rými, og þegar tengsl og traust er til staðar ætti björgunarstarf að verða auðveldara,“ segir Sigríður Björk. Hún getur þess að vísir að stjórnstöð hafi verið kominn áður á lögreglustöðinni við Hverfisgötu. Þaðan var aðgerðum til dæmis stýrt eftir bankarán í Borgartúni seint á síðasta ári og nokkrum málum eftir það. Hins vegar hefur ekki verið aðstaða fyrir alla aðgerðarstjórn höfuðborgarsvæðisins á einum og sama stað fyrr en nú.

„Ávinningur lögreglunnar er einnig sá að úr einni stjórnstöð fæst góð yfirsýn á allt höfuðborgarsvæðið. Við getum stillt saman strengi og mannskap af öllum stöðvum þegar verkefnin krefjast. Að einhver einn sé til svara hjá lögreglunni á hverjum tíma og sjái yfir sviðið allt í að gera starfið markvissara. Með þessu ættum við líka að geta sinnt fjölmiðlum betur. Í raun tel ég þetta vera hluta af nútímavæðingu lögregluembættisins.“

Fjölbreytt og flókin verkefni

Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri segir nýju stjórnstöðina munu án efa gera samstarf manna hans við lögregluna betra. „Við vinnum náið saman og verkefnin verða æ fjölbreyttari og flóknari. Almannavarnaástand getur til dæmis verið flugslys, stórir eldsvoðar, náttúruvá eða langvarandi rafmagnsleysi. Einnig vá um borð í skemmtiferðaskipunum sem hingað koma inn, jafnvel með þúsundir farþega um borð. Svona mætti áfram telja,“ segir hann og heldur áfram:

„Þó er rétt að taka fram að svona aðstæður hafa aldrei komið upp. Altæku almannavarnaástandi í Reykjavík hefur aldrei verið lýst yfir, sem betur fer. Verkefnin hafa jafnan verið minni hægt að ráða við þau. “

Jón Viðar vekur athygli á því að í slysinu á Mosfellsheiði fyrr í vikunni hafi þorri farþeganna verið frá Kína, sem hafi kallað á viðbrögð til dæmis vegna túlkaþjónustu. Því og fleiru hafi verið sinnt úr stjórnstöðinni, þangað sem fólk frá Landspítalanum, Rauða krossinum, björgunarsveitum og fleiri komu inn. Samhæfð upplýsingakerfi og fjarskiptabúnaður skipti miklu og baklandið hafi verið samhæfingarmiðstöð almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra sem sinnir landinu öllu. „En auðvitað skipti mestu að fólk var þjálfað og þekktist. Flugslysaæfingin á Reykjavíkurflugvelli nú í byrjun mánaðarins reynist þýðingarmikil og rútuslysið var eldskírn,“ segir Jón Viðar að síðustu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert