Forsetinn er „trendsetter“

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, með buffið á höfðinu.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, með buffið á höfðinu. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Finnst þér þetta ekki stórkostlegt?“ spyr Svava Aradóttir, framkvæmdastjóri Alzheimer-samtakanna, í samtali við blaðamann mbl.is. „Forsetabuffið“ hefur vakið mikla lukku og pöntunum rignir inn í netverslun Alzheimer-samtakanna eftir að Guðni birtist í viðtali á mbl.is með buff á höfðinu.

Hann er „trendsetter,“ forsetinn okkar. Nú er enginn maður með mönnum nema ganga með buff frá Alzheimer-samtökunum,“ bætir Svava við en „trendsetter“ er einhver sem setur ný tískuviðmið eða leggur línurnar í tískunni.

Frétt mbl.is: Þetta forláta höfuðfat

„Það hefur komið heilmikill kraftur í söluna sem er frábært. Þetta hefur vakið mikla athygli. Umræðan sem Alzheimer-samtökin og þessir sjúkdómar fá í kjölfarið er það sem skiptir okkur mestu máli. Guðni er að styðja alveg óskaplega vel með þessu,“ segir Svava en henni hefur samt þótt umræða síðustu daga um margt hálf furðuleg:

„Það var verið að velta því fyrir sér í morgun hvort þetta færi höfðinu á honum vel eða ekki. Enginn spurði hvers vegna hann væri með buff merkt Alzheimer-samtökunum. Það er mergurinn málsins; hann er að vekja athygli á samtökunum og sjúkdómunum. Við þökkum honum hjartanlega fyrir það.“

Umræðan um heilabilun og tengda sjúkdóma snúist mikið um að fræða og vekja fólk til umhugsunar en með því sé hægt að minnka fordóma og auka þekkingu. „Það er ekki ónýtt að hafa mann eins og Guðna til að styðja sig í því.“

Hægt er að nálgast „forsetabuffin“ hér.

Frétt mbl.is: Forseti standi ekki í veginum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert