Formenn ræddu saman vegna Brúneggs

Ólafur Arnarson, formaður Neytendasamtakanna.
Ólafur Arnarson, formaður Neytendasamtakanna. mbl.is/Golli

Formaður Neytendasamtakanna átti í dag fund með formanni Bændasamtakanna þar sem meðal annars var rætt um þær upplýsingar um meðferð dýra og blekkingar til neytenda sem upplýst var um í Kastljósi Rúv í gærkvöldi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Neytendasamtökunum.

Frétt mbl.is: Vistvæn framleiðsla þýðir ekki neitt

Þar kemur fram að bæði samtökin séu á einu máli um að það sé með öllu óviðunandi að ekki sé gætt að góðum og heilnæmum aðbúnaði dýra við matvælaframleiðslu.

Kastljós fjallaði um Brúnegg í þætti sínum í gærkvöldi.
Kastljós fjallaði um Brúnegg í þætti sínum í gærkvöldi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einnig eru báðir aðilar sammála um að óásættanlegt sé að merkingar umbúða séu notaðar til að blekkja neytendur.

Neytendasamtökin skora á íslensk stjórnvöld að heimila nú þegar tollfrjálsan innflutning á lífrænt vottuðum matvælum í samræmi við EES-samninginn og í þágu íslenskra neytenda.

Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna.
Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna. mbl.is/Árni Sæberg

Tilkynningin í heild sinni:

Neytendasamtökin og Bændasamtökin eru á einu máli um að það er með öllu óviðunandi að ekki sé gætt að góðum og heilnæmum aðbúnaði dýra við matvælaframleiðslu. Þá eru aðilar sammála um að óásættanlegt sé að merkingar umbúða séu notaðar til að blekkja neytendur. Neytendur verða að geta treyst því að á umbúðamerkingum séu áreiðanlegar upplýsingar um innihald og uppruna matvöru.

Formaður Neytendasamtakanna hefur óskað eftir fundi með forstjóra Matvælastofnunar vegna þessa máls til að ræða m.a. viðbrögð til að tryggja að upplýsingum um villandi merkingar á matvælum sé ekki haldið frá neytendum, jafnvel árum saman.

Stjórn Neytendasamtakanna telur notkun merkinga um vistvæna framleiðslu á matvælum jafngilda blekkingum til neytenda þar sem engin viðurkennd vottun eða eftirlitsferli er fyrir hendi um slíka framleiðslu. Samkvæmt lögum og reglum getur landbúnaður ekki talist vistvænn heldur einungis hefðbundinn eða lífrænn. Um lífrænan landbúnað gilda viðurkenndir alþjóðlegir staðlar og vottunarkerfi, en ekkert slíkt er fyrir hendi um vistvænan landbúnað. Því telja Neytendasamtökin að þegar í stað eigi að banna framleiðendum að merkja vörur sínar sem vistvæna framleiðslu.

Stjórn Neytendasamtakanna lýsir þeirri von sinni að ástand í eggjaframleiðslu á Íslandi endurspeglist ekki í þeirri umfjöllun sem var í Kastljósi í gær. Neytendur eiga hins vegar erfitt með að treysta eftirliti og stjórnvöldum sem leyfa slíka blekkingu gagnvart neytendum um árabil. Það er krafa samtakanna að niðurstöður úr skoðunarheimsóknum í matvælaframleiðslufyrirtæki verði opinber gögn öllum aðgengileg. Öflugasta eftirlit og aðhaldið felst í því að neytendur hafi greiðan aðgang að upplýsingum og geti tekið upplýstar ákvarðanir um kaup á vöru og þjónustu.

Neytendasamtökin lýsa sig reiðubúin til að koma að borðinu við að byggja upp traust á skilvirku eftirliti með íslenskum matvælaframleiðendum. Mikilvægt er að hagsmunir og sjónarmið neytenda liggi til grundvallar við slíkt eftirlit.

Neytendasamtökin skora á íslensk stjórnvöld að heimila nú þegar tollfrjálsan innflutning á lífrænt vottuðum matvælum í samræmi við EES-samninginn og í þágu íslenskra neytenda. Við lífræna vottun matvæla eru gerðar ríkar kröfur um innihalds- og upprunalýsingu matvæla og því væri tollfrjáls innflutningur sterkur hvati til að styðja við greinagóðar innihalds- og upprunamerkingar á íslenskum matvælum, sem framleidd eru fyrir neytendamarkað.

Mikilvægt er að grípa tafarlaust til markvissra aðgerða til að tryggja hag og réttindi íslenskra neytenda á matvælamarkaði. Í því sambandi er mikilvægt að tryggja þátttöku neytenda og efla þátt eftirlitsstofnana og ríkisvaldsins með hagsmuni neytenda í huga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert