Er hnetusmjör gott í skóinn?

Stekkjarstaur mætti með rúmlega 10.000 skammta af næringaríku jarðhnetumauki sem …
Stekkjarstaur mætti með rúmlega 10.000 skammta af næringaríku jarðhnetumauki sem Íslendingar létu af hendi rakna. Teikning/Brian Pilkington

Jólasveinar hinna ýmsu landa eru önnum kafnir þessa dagana. Sjálfsagt eru þó íslensku jólasveinarnir einna víðförulastir þetta árið, en þeir hafa verið á fleygiferð á vegum hjálparsamtakanna UNICEF. Þar á meðal er Stekkjarstaur sem er nýkominn aftur úr löngu og ströngu ferðalagi um nærri þrjátíu lönd vítt og breitt um heiminn.

„Ferðalagið gekk út á að koma nauðsynlegum hjálpargögnum til bágstaddra barna,“ segir Stekkjarstaur. „Fyrir síðustu jól seldi UNICEF á Íslandi svokallaðar sannar gjafir. Fólk gat fjárfest í hjálpargögnum á netinu og við bræðurnir sáum um að koma þeim til skila. Það féll í minn hlut að fara með vítamínbætt jarðhnetumauk sem hjálpar vannærðum börnum. Víða er mikil þörf á slíku.“

Í ferðalaginu heimsótti Stekkjarstaur meðal annars Tógó, Filippseyjar, Pakistan, Fílabeinsströndina, Sómalíu, Malí og Gana, sem og Sýrland og Jemenþar sem ástandið hefur verið skelfilegt vegna stríðsátaka. Í farteskinu hafði hann rúmlega 10.000 skammta af næringaríku jarðhnetumauki sem Íslendingar létu af hendi rakna. 

Ljósmynd/UNICEF

Sauðamjólkin best í Jemen

Eins og flestir vita er Stekkjarstaur mikill áhugamaður um mjólk úr ám og finnst hún best beint úr spenanum. Hann segist hafa smakkað spennandi sauðamjólk á ferðalaginu. „Hún var býsna góð í Jemen. Þar er rík hefð fyrir sauðfjárrækt. Víðast hvar var hægt að fá geitamjólk en mér þykir hún síðri. Ég er alltaf hrifnastur af íslensku sauðamjólkinni.“ 

Stekkjarstaur bendir á að einnig sé hægt að kaupa næringarmjólk sem sé notuð til að hjálpa veikustu börnunum á næringarspítölum. Slík mjólk sé sem dæmi mikið notuð af starfsfólki UNICEF í Jemen en þar þjást afar mörg börn af vannæringu núna. 

Ljósmynd/UNICEF

Erfitt að ferðast á staurfótum

Stekkjarstaur viðurkennir að hann sé býsna lúinn eftir ferðalagið, enda enginn hægðarleikur að ferðast á staurfótum. Aðspurður segir hann að það hafi þó aldrei hvarflað að sér að sleppa því að gefa krökkum á Íslandi í skóinn þetta árið. 

„Ertu frá þér?“ spyr hann undrandi. „Það eru þrettán dagar í jól – þá gef ég í skóinn! Það er ekkert flóknara en það.“ 

Íslensku jólasveinarnir eru þekktir fyrir stríðni og pretti. Þeir hafa hins vegar snúið við blaðinu og hjálpa nú UNICEF við að koma hinum ýmsu hjálpargögnum til barna í neyð. Fólk getur keypt gjöf sem bjargar lífi barna á vefsíðunni sannargjafir.is.

Til að leggja lóð sín á vogarskálarnar birtir mbl.is myndband með jólasveini dagsins á hverjum degi fram að jólum.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, berst fyrir réttindum allra barna og er í einstakri stöðu til að þrýsta á um breytingar á heimsvísu.

Ljósmynd/UNICEF
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert