Mál Öldu Hrannar fellt niður

Alda Hrönn Jóhannsdóttir.
Alda Hrönn Jóhannsdóttir. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Mál sem settur héraðssaksóknari var með til rannsóknar vegna kæru gegn Öldu Hrönn Jóhannsdóttur, aðallögfræðingi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, hefur verið fellt niður. Í tilkynningu segir Alda það hafa verið sér þungbært að vera borin sökum varðandi aðkomu sína að máli lögreglumanns hjá embættinu og tveggja annarra aðila. Alda segir jafnframt að ásakanirnar hafi reynst með öllu tilefnislausar.

Frétt mbl.is: Hafa kært Öldu Hrönn

Vísar Alda í niðurstöðu setts héraðssaksóknara þar sem segir að ekkert bendi til þess að „kærða hafi í heimildarleysi rannsakað málið, aflað upplýsinga, dreift nektarmyndum eða borið rangar sakargiftir á kærendur. Enn fremur hafa ekki komið fram neinar upplýsingar sem færa rök að því að kærða hafi veitt fjölmiðlum upplýsingar sem leynt áttu að fara, eða dreift þeim með ólögmætum hætti, líkt og haldið er fram í kæru.“ Aftur á móti verði að líta svo á að aðkoma Öldu Hrannar að málinu hafi verið í samræmi við munnleg fyrirmæli ríkissaksóknara.

Jafnframt vísar Alda í að niðurstöðurnar um að ekkert bendi til lögbrots: „Að mati setts héraðssaksóknara hefur því ekkert komið fram við rannsóknina sem bendir til þess að kærða, Alda Hrönn, hafi gerst sek um brot á ákvæðum lögreglulaga nr. 90/1996, ákvæðum laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 eða annarra ákvæða sérrefsilaga eða almennra hegningarlaga sem vísað er til í kærum.“

Alda segir í tilkynningunni að ásakanirnar hafi verið fráleitar og að niðurstaða setts héraðssaksóknara sýni ótvírætt að enginn fótur hafi verið fyrir þeim. „Það er afar þungbært að vera borin sökum algerlega að tilefnislausu, bæði í kæru og í fjölmiðlum, og þurfa að sæta því að vera leyst frá störfum fyrir það eitt að vinna starf mitt lögum samkvæmt og af fyllstu fagmennsku. Það er gott að rannsókninni sé loksins lokið. Ég hef ávallt haldið fram sakleysi mínu af þeim fráleitu ásökunum sem á mig voru bornar og staðfestir niðurstaða setts héraðssaksóknara með ótvíræðum hætti að enginn fótur var fyrir þeim,ˮ segir Alda í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert