Dúx Tækniskólans með 9,73 í einkunn

Frá útskriftarathöfn Tækniskólans. F.v: Þór Pálsson (aðstoðarskólameistari), Guðrún Randalín (skólastjóri …
Frá útskriftarathöfn Tækniskólans. F.v: Þór Pálsson (aðstoðarskólameistari), Guðrún Randalín (skólastjóri Upplýsingatækniskólans), Haraldur Örn Arnarson (dúx), Andrea Jónsdóttir (semidúx) og Jón B. Stefánsson (skólameistari). Mynd/Tækniskólinn

275 nemendur brautskráðust frá alls tíu deildum Tækniskólans við hátíðlega athöfn í Eldborgarsal Hörpu þann 21. desember. Dúx skólans á haustönn 2016 er Haraldur Örn Arnarson sem útskrifaðist með einkunnina 9,73 úr grafískri miðlun frá Upplýsingatækniskólanum og semidúx er Andrea Jónsdóttir með einkunnina 9,36 í sama fagi.

Athöfninni var skipt í tvo hluta en fyrst var útskrifað frá framhaldsskólastigi og svo frá fagháskólastigi. Þá voru einnig útskrifaðir nemar úr Flugskólanum og úr hljóðtækninámi sem er námsleið í samstarfi Tækniskólans og Stúdío Sýrlands. 

Brautskráðir voru 31 nemandi frá Byggingatækniskólanum, 31 frá Handverksskólanum, 58 frá Raftækniskólanum, 6 frá Skipstjórnarskólanum, 33 frá Upplýsingatækniskólanum, 20 frá Véltækniskólanum og 29 frá Tæknimenntaskólanum. Þá útskrifuðust alls 26 frá Flugskólanum, 42 frá Meistaraskólanum og 15 úr hljóðtækninámi.

Frá útskriftarathöfninni í Eldborgarsal Hörpu.
Frá útskriftarathöfninni í Eldborgarsal Hörpu. Mynd/Tækniskólinn

Skólameistari minntist á „stafræna fumbyggjann“

Við athöfnina flutti Jón B. Stefánsson skólameistari hátíðarræðu þar sem hann vék máli sínu meðal annars að nemendum framtíðarinnar og hvernig skólakerfið þurfi að vera tilbúið til að taka á móti þeim að því er fram kemur í tilkynningu frá skólanum. Minntist hann á „stafræna frumbyggjann“ sem eru börnin og unglingarnir sem hafa haft snjalltæknina í höndunum samhliða því að læra móðurmálið.

„Skólakerfið þarf að vera tilbúið að taka á móti þessum nemum og Tækniskólinn stefnir á að leggja sitt af mörkum til þess. Þróa þarf starfs- og verknám svo litið verði til þess og skólans sem framsækins möguleika til framtíðar fyrir tæknivædda nemendur,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

„Gínuáskorun“ í miðri athöfn

Í miðri útskriftarathöfn var ákveðið að taka svokallaða „gínuáskorun“ sem nú tröllríður Internetinu, var hún tekin upp á myndband og birt á Facebook-síðu skólans. Myndbandið má sjá hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert