Þrumur og eldingar fylgdu skilunum

Veðrið er að ganga niður á suðvesturhorninu.
Veðrið er að ganga niður á suðvesturhorninu. mbl.is/Kristinn

Fólk varð vart við þrumur og eldingar á höfuðborgarsvæðinu í hádeginu. Veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands segir það ekki óeðlilegt þegar skil ganga yfir en versta veðrið er nú að baki á suðvesturhorninu.

„Samfara þessum skilum var röð eldinga í jaðri skilanna. Það kemur fyrir að það myndist svona röð í jaðri svona öflugra skila, eins og voru að ganga yfir,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Einnig sástu eldingar í Vestmannaeyju og Óli segir að það sjáist á korti á Veðurstofunni að það hafi verið talsvert um eldingar. „Það er ekkert óeðlilegt að fólk verði vart við eldingar.“

Skilin eru farin yfir Reykjanesið og eru á leið norður og austur. Einhver væta verður áfram og ágætlega hvasst en ekkert í líkingu við það sem var í morgun.

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is