Eins og að pissa í skóinn

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir lagasetningu ekki leysa …
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir lagasetningu ekki leysa sjómannadeiluna til lengri tíma. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, líkti lagasetningu á verkfall sjómanna við það að „pissa í skóinn“ í þættinum Silfrinu á Rás 2 nú í morgun. Sér hugnist ekki að ríkið komi að deilunni með sértækum hætti og biðlaði hún til deiluaðila að fara inn í vikuna með það í huga að semja.

Ekkert réttlæti sértækar skattaaðgerðir á verkfall, heldur feli það þvert á móti í sér einstakt tækifæri til að gera skattkerfið einfaldara.

Þá sagði hún það öfugsnúið að tala um að útgerðir eigi að greiða sanngjarnt verð fyrir auðlindina, en krefjast svo þess að ríkið styrki sjávarútveginn með skattbreytingu. „Ef útgerðin, SFS og stjórnmálamenn eru að krefjast þess að ríkið komi að því að styrkja sjávarútveginn í formi skattaafsláttar þá er það ný nálgun af hálfu útgerðarinnar,“ sagði Þorgerður Katrín.

„Það er skrýtið að heyra stjórnmálamenn, sérstaklega þá sem hafa verið í ríkisstjórn, kalla eftir alls konar viðbrögðum þegar þeir vita það að ráðherra er stöðugt í sambandi við deiluaðila.“ 

„Ég held að það sé mjög óheppilegt ef við ætlum að setja lög á verkfallið núna til að stoppa það, þá erum við ekkert að leysa nein verkefni til lengri tíma, heldur kannski einfaldlega að pissa í skóinn okkar.“

Þorgerður biðlaði þá til deiluaðila að fara inn í vikuna með það í huga að semja og binda enda á verkfallið. „Ég hvet menn til að hverfa frá þeim hugsunarhætti að ríkið komi að deilunni með sértækum aðgerðum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert