22% kvenna búa við heimilisofbeldi

Drífa Jónasdóttir, afbrotafræðingur og doktorsnemi.
Drífa Jónasdóttir, afbrotafræðingur og doktorsnemi. mbl.is/Golli

„Á heimsvísu er talið að þriðjungur kvenna búi við heimilisofbeldi, en á Íslandi er áætlað að hlutfallið sé 22%,“ sagði Drífa Jónasdóttir, afbrotafræðingur og doktorsnemi við læknadeild Háskóla Íslands, í erindi sem hún flutti um komur kvenna á bráðamóttöku Landspítala vegna heimilisofbeldis. 

Drífa er ein þeirra sem fluttu erindi á Bráðadeginum sem haldinn var á Hótel Natura í Reykjavík í dag. Í erindinu vitnaði hún meðal annars í frumniðurstöður lokaverkefnis síns.

Að sögn hennar eru áverkar þessara kvenna í flestum tilfellum „minniháttar og dreifðir“ en helst eru þær með áverka á höfði, efri útlimum, andliti og hálsi.

„35% af konum sem koma [á bráðamóttökuna] út af ofbeldi koma út af heimilisofbeldi. En hlutfallið er örugglega meira,“ sagði Drífa og benti á að erfitt sé að fá mjög nákvæma mynd á hlutfallið þar sem fáar konur viðurkenna það beinlínis fyrir heilbrigðisstarfsfólki að þær séu þangað komnar vegna ofbeldis sem framið var af ástvini.

„Þessar konur eru einnig að koma ítrekað, en 14% af þeim sem komu út af heimilisofbeldi voru ekki að koma í fyrsta skipti,“ sagði hún og bætti við að flestar koma konurnar á sjúkrahús á sunnudögum milli klukkan 16 og miðnættis.

Fyrri frétt mbl.is frá Bráðadeginum:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert